Húsnæðið ekki íbúðarhæft

Arek og Linda.
Arek og Linda.

Í síðustu viku birti mbl.is sögu ungrar fjölskyldu í Þorlákshöfn sem sáu fram á að lenda á götunni eftir að húsið sem þau bjuggu í var selt og þeim gert að afhenda húslyklana. 

Fjölskyldan sem hefur leigt húsið samanstendur af þeim Arkadiuz K. Kujoth, sem er jafnan kallaður Arek, Lindu Steinunni Guðgeirsdóttur og þremur börnum þeirra. Arek reyndi að kaupa húsið þegar eigin fór á nauðungarsölu en Landsbankinn bauð betur og var þeim gert að rýma húsið í gær.

Arek segir bankann hafa séð að sér og ákveðið að bjóða þeim leigu áfram. „Við fengum símtal í gær þegar við vorum hálfnuð með að rýma húsið og var okkur boðið að leigja húsið áfram.“

Upplýsingafulltrúi Landsbankans segir í samtali við mbl.is, að fyrri umfjallanir um málið byggi á misskilningi og tekur fram að mál fjölskyldunnar í Þorlákshöfn sé ekki einsdæmi. Reynt sé að koma til móts við fólk og hefur bankinn boðið fjölskyldunni gjaldfrjálsan rýmingarfrest til 1. október þar sem þau hafi ekki óskað eftir að leigja húsnæðið áfram.

Hyggjast skila lyklunum vegna skemmda

Fjölskyldan unga dvelur nú í húsinu í Heinabergi 8 en þau munu ekki þiggja boð bankans um að leigja húsið áfram vegna skemmda á húsinu. „Við búumst við að skila lyklunum á næstu dögum vegna skemmda í húsinu. Það svarar ekki kostnaðinum að laga þessar skemmdir og selja það síðan,“ segir Arek.

Arek segir skemmdirnar vera flestar á utanverðu húsinu. „Það eru stórar sprungur sem liggja utan á og inn í húsið meðfram veggjunum. Þakið lekur talsvert mikið og dropar rigningavatn á gólf hússins þegar rignir.“

Vegna þessa rakaskemmda telur Arek húsið ekki vera barnhæft en parið á þrjú börn, fjögurra mánaða, tveggja og sex ára. „Það er ekki hægt að bjóða börnunum uppá að vera þarna áfram,“ segir Arek.

Engin lausn í sjónmáli

Arek segir ekkert húsnæði vera laust til leigu í Þorlákshöfn og þau séu nú að velta fyrir sér möguleikanum á að kaupa húsnæði í gegnum foreldra hans þar sem bankinn hefur neitað þeim um lán á grundvelli bágra kjara fjölskyldunnar.

Enn hefur sveitarfélagið ekki boðið fjölskyldunni aðstoð sína en Arek segir þau ætla að ræða betur við bæjarfulltrúa um að þrýsta á bankann til þess að leysa húsnæðisvanda þeirra. „Við ætlum að reyna allt sem við getum, svo kemur í ljós hvað kemur út úr því.“

Foreldrar Areks hafa boðið fjölskyldunni aðstoð og flytur fjölskyldan inn til þeirra í vikunni að öllu óbreyttu. Þar mun fjölskyldan gista saman í einu herbergi og bíða lausna á húsnæðisvanda sínum. „Það er engin lausn í sjónmáli,“ segir Arek um framhaldið.

„Þetta er búið að vera mjög erfitt tímabil. Það er þreytandi að eiga sér ekki samastað, að vita ekki hvar við munum sofa næstu nótt.“

Slíkum málum hefur fjölgað eftir bankahrun

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir fyrri umfjallanir um málið hafa ollið misskilningi þó hann megi ekki veita upplýsingar um mál Areks og fjölskyldu eins og önnur einstök mál.

Kristján segir þó að mál fjölskyldunnar í Þorlákshöfn sé ekki einsdæmi og slíkum málum hafi í raun fjölgað eftir bankahrunið 2008.

Þá segir hann mikilvægt að fólk hafi í huga að bankinn er raun ekki upplýstur um það hverjir það séu sem búa í húsnæði enda er starfsfólk bankans aðeins í sambandi við leigusalann eða þann sem borgar af láninu. Leigusalinn ber síðan ábyrgð á leigusamningum og að upplýsa leigjenda um stöðu mála.

Leigjendur standa í skilum en leigusalar borga ekki lánin

Kristján segir að í sumum tilfellum komi það fyrir að leigusali borgi ekki af lánum sínum en taki jafnframt við greiðslu frá leigjanda. Í slíkum tilfellum geta leigjendum verið gert að rýma húsnæði með skömmum fyrirvara ef leigusali hefur ekki upplýst leigjendur eins og hann ætti að gera.

Kristján segir jafnframt að bankinn geri sitt besta að aðstoða og koma til móts við þá einstaklinga sem þetta hendir.

Þá hefur Landsbankinn boðið Arek og fjölskyldu gjaldlausan rýmingarfrest til 1. október þar sem þau hafa ekki óskað eftir því að leigja húsnæðið áfram.

Parið á þrjá unga drengi þá Guðgeir Þór, Sebastian Mána …
Parið á þrjá unga drengi þá Guðgeir Þór, Sebastian Mána og Kristó­fer Dag sem er yngst­ur þeirra bræðra.
Fjöl­skyld­an býr nú í Heina­bergi 8 í Þor­láks­höfn en flytur …
Fjöl­skyld­an býr nú í Heina­bergi 8 í Þor­láks­höfn en flytur út á næstu dögum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert