Aldrei fleiri ánægðir með Menningarnótt

Hlutfall þeirra sem sögðust mjög jákvæðir með Menningarnótt hefur aldrei verið hærra frá því mælingar hófust eða 49,5%. Jákvæðni gagnvart Menningarnótt hefur farið vaxandi undanfarin ár og eftir síðustu hátíð sögðust 76% vera mjög jákvæð eða frekar jákvæð gagnvart hátíðinni.

Rúm 26% sögðust jákvæð og rúm 20% svöruðu hvorki né. Frekar neikvæðir voru 2,3% og 1,5% mjög neikvæð. Þriðjungur þjóðarinnar tók þátt í Menningarnótt í ár sem er töluverð aukning frá því í fyrra þegar fjórðungur þjóðarinnar tók þátt.

Menningarnótt er stærsta skipulagða hátíð sem haldin er á Íslandi og á næsta ári fagnar hún 20 ára afmæli. Vaxandi ánægja og þátttaka þjóðarinnar í Menningarnótt er tilkomin vegna sameiginlegrar vinnu allra sem komið hafa að hátíðinni frá upphafi segir Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgarstofu í tilkynningu. „Með hverri Menningarnótt bætist í reynslubankann og undanfarin nítján ár hafa hundruð manna lagt þar ríkulega inn. Það á við um listafólk sem leggur til viðburði, öryggisaðila sem koma að skipulagningu á öryggi og aðgengi, fyrirtæki sem leggja til fjárhagslegan stuðning, fyrrverandi og núverandi starfsfólk á Höfuðborgarstofu og öðrum sviðum Reykjavíkurborgar auk fjölda annarra samstarfsaðila.“

Könnun Gallup var framkvæmd á tímabilinu 28. ágúst – 8. september. Úrtak var 1.448 og þátttökuhlutfall 58,6%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert