Vilja „aðlægt belti“ utan um Ísland

Varðskipið Týr.
Varðskipið Týr. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Fram kemur í greinargerð að íslensk stjórnvöld hafi í gegnum árin verið óhrædd við að taka af skarið og gera ítrustu kröfur þegar kemur að samskiptum við önnur ríki um málefni hafsins en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Stjórnvöld hafa þó ekki nýtt sér mögleika á að stækka lögsögu íslenska ríkisins er varðar ákveðna málaflokka um 12 sjómílur með því að taka sér svokallað aðlægt belti sem 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna heimilar ríkjum að taka sér. Ákvæðið um aðlægt belti var upphaflega í Genfarsamningnum frá 1958 þar sem ríkjum varð heimilað að þjóðarétti að taka upp aðlægt belti. Samkvæmt samningnum mátti aðlægt belti ná 12 sjómílna fjarlægð frá grunnlínu. Íslensk stjórnvöld fullgiltu aldrei Genfarsamninginn og Ísland lýsti aldrei yfir aðlægu belti á grundvelli hans,“ segir ennfremur. Bent er hins vegar á að í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna sé ákvæði sem beri yfirskriftina „aðlægt belti“ í 33. grein og það talið endurspegla þjóðréttarlegar venjur um lögsögu strandríkja á aðlægu belti. Samkvæmt greininni sé gert ráð fyrir að aðlæga beltið nái allt að 24 sjómílur frá grunnlínum.

„Fram hafa komið þau sjónarmið að mikilvægi aðlægs beltis hafi minnkað með tilkomu ákvæða hafréttarsamningsins um efnahagslögsögu. Strandríkjum sé nú heimilað að taka sér allt að 200 sjómílna efnahagslögsögu og þá sé aðlæga beltið innan þeirrar lögsögu. Flutningsmenn telja að þrátt fyrir 200 mílna efnahagslögsögu hafi aðlæga beltið mikilvæga þýðingu þar sem réttindi sem fylgja efnahagslögsögunni taki ekki til þeirra málaflokka sem fylgja aðlæga beltinu. Þannig að þrátt fyrir að aðlæga beltið feli ekki sér eiginlega stækkun á yfirráðasvæði ríkisins þá mundi fjölga þeim málaflokkum sem ríkið hefði forræði yfir á svæðinu sem það tekur til.“

Strandríkið geti á alæga beltinu farið með nauðsynlegt vald annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum á landi eða innan landhelgi þess og hins vegar til þess að refsa fyrir brot á fyrrgreindum lögum og reglum sem framin eru á landi eða innan landhelgi viðkomandi ríkis. „Í því samhengi má benda á að öryggis- og varnarmál Íslands á friðartímum eru alfarið á könnu ríkisins og því frekari rök sem hníga til þess að taka upp aðlægt belti, en með því fengi Landhelgisgæslan rýmri heimildir til eftirlits í þeim veigamiklu málaflokkum sem hér hafa verið nefndir.“

Þingsályktunin í heild

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert