Skjálftavirknin skoðuð í tíma og rúmi

Síðan skjálftavirknin undir Bárðarbungu hófst 16. ágúst hefur Veðurstofa Íslands skráð mörg þúsund skjálfta, bæði undir Bárðarbungu og í kvikuganginum, sem teygir sig til norðurs um 70 kílómetra veg, alla leið í grennd við Öskju.

Í meðfylgjandi myndbandi, sem Einar Hjörleifsson og Haraldur Sigurðsson bjuggu til er hægt að skoða sjálftavirknina í tíma og rúmi. Myndbandið er gert úr gögnum Veðurstofu Íslands en kortið er frá Landmælingum Íslands.

 „Stærð jarðskjálfta er sýnd með stærð hringja. Rauðir hringir eru minna en klukkutíma gamlir. Síðan verða þeir bláir punktar. Klukkan efst til vinstri sýnir ár, mánuð, dag, klukkustund og mínútur,“ segir Haraldur í samtali við mbl, en hver klukkutími í raunveruleikanum er innan við eina sekúndu í myndskeiðinu.

 Að sögn Haraldar sýnir neðri glugginn dreifingu skjálfta á þversniði frá vestri til austurs í gegnum Vatnajökul og nágrenni. Lóðrétti ásinn er dýpi, í kílómetrum, niður í 20 km, en það eru nokkurn veginn neðri mörk jarðskjálftanna. Langflestir skjálftar eru á bilinu 5 til 12 km.

„Hægri glugginn sýnir samskonar þversnið, en þar er það skjálftavirknin í suður-norður átt, niður í 20 km. Þessi gluggi sýnir því mjög vel hvernig kvikugangurinn mjakast norður á bóginn, undan Dyngjujökli og í átt til Öskju,“ segir Haraldur.

 Jafnframt sýnir glugginn neðst til hægri fjölda skjálfta á dag, bæði undir Bárðarbungu og umhverfis kvikuganginn til norðurs. Skjálftar af stærðinni 3 og stærri eru sýndir með rauðu í þessum glugga. „Í myndskeiðinu kemur í heild vel fram myndrænt samhengi milli skjálftavirkni í Barðarbungu og í kvikuganginum, fyrst til austurs og síðan til norðurs,“ segir Haraldur.

 Hér eru nokkrar athuganir við virknina frá Haraldi, en atburðarásin er hröð:

1.Skjálftar hefjast í norður brún öskju Bárðarbungu á 5 til 10 km dýpi seint hinn 15. ágúst. Þeir dreifa sér fljótlega í hring um öskjubrúnina hinn 16. ágúst.

2.Um hádegisbil hinn 16. ágúst brýst kvikugangur út úr Bárðarbungu og stefnir hratt til suðausturs.

3.Um klukkan 22 þann dag (16. ágúst) breytir kvikugangurinn snögglega um stefnu til norðausturs á um 10 km dýpi. Skjálftar eru einnig öðru hvoru undir Kistufelli í norðvestri á 5 til 10 km dýpi.

4.Kvikugangurinn þróast til norðausturs allt til um klukkan 8 hinn 23. ágúst.

5.Klukkan 9 að morgni hinn 23. ágúst gerist ótrúlega snöggt stökk, þegar kvikugangurinn hliðrast til vesturs og rýkur áfram hratt til norausturs á 10 til 15 km dýpi. Þessi leiftursókn er eiginlega stórkostlegasti atburðurinn í þessari virkni Bárðarbungu. Sennilega hefur hár kvikuþrýstingur verið kominn í kvikuþrónni og í kvikuganginum, en nú fengið skyndilega útrás, þegar kvikan fann sér leið aðeins vestar og inn í nýja sprungu til norðausturs. Samtímis heldur skjálftavirkni áfram undir öskjubrúnum Bárðarbungu.

6.Kl. 7 að morgni hinn 24. ágúst hefur kvikugangurinn náð norður brún Dyngjujökuls, en hér grynnkar hann í fyrsta sinn og sendir upp skjálfta grynnir en 5 km. Meginvirknin er samt enn á 10 til 15 km dýpi.

7.Kvikugangurinn heldur áfram til norðausturs en byrjar að hægja á sér um kl. 6 að morgni hinn 26. ágúst. Þar á eftir er skjálftavirkni víða í ganginum eða ofan hans.

8. Um kl. 10 um morguninn hinn 29. ágúst hófst eldgosið,, samkvæmt mynd úr gervihnetti. Á þeim tíma var skjálftavirkni dreifð í ganginum norðan Dyngjujökuls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert