Fundu lítinn kettling í strætó

Jónný Hekla Hjaltadóttir með kettlinginn í hálsakoti.
Jónný Hekla Hjaltadóttir með kettlinginn í hálsakoti.

Strætóbílstjóri á leið upp í Borgarnes varð heldur betur undrandi þegar hann fann lítinn kettling í bílnum. Kettlingurinn var hálfblindur og varla meira en vikugamall. Einn farþega í bílnum tók kettlinginn að sér og búið er að finna fósturmóður handa honum á Akranesi.

Vigdís Guðrún Sigvaldadóttir þekkir þessa sögu, en sonur hennar, Sigvaldi Arnar Hjaltason, tók kettlinginn að sér þegar hann var á leiðinni með strætó upp í Borgarnes. Vigdís segir að Sigvaldi hafi ætlað að taka strætó frá Háskóla Íslands á föstudaginn eins og hann er vanur. Hann missti hins vegar af strætó og tók því fyrsta vagn á laugardagsmorgun úr bænum.

Þegar Sigvaldi kom í vagninn var strætisbílstjórinn í standandi vandræðum. Hann var búinn að finna kettling í bílnum og átti erfitt með að halda á honum og sjá jafnframt um að aka bílnum. Sigvaldi bauðst því til að halda á honum.

Vigdís segir að líklegast sé talið að pumpa, sem heldur hurð á vagninum lokaðri, hafi bilað og hurðin hafi því opnast. Síðan hafi læðan sem átti kettlinginn verið að leita að nýjum stað fyrir kettlingana sína, eins og læður eiga til að gera. Hún hafi því ætlað að flytja ketlingana í strætisvagninn, en honum hafi verið ekið í burtu áður en hún náði að ljúka við flutningana.

Þegar upp í Borgarnes kom ákvað Sigvaldi að taka kettlinginn með sér heim. Þar tóku móðir hans og systir við honum og reyndu sitt besta til að koma mjólk ofan í hann. Vigdís greip til þess ráðs að auglýsa eftir læðu á facebook. Það skilaði fljótt árangri og á laugardagskvöldið var kettlingurinn kominn út á Akranes þar sem læða með kettlinga tók hann að sér. Guðrún sagði að læðan hefði strax verið tilbúin til að leyfa honum komast á spena og allir væru alsælir með að hafa náð að bjarga lífi kettlingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert