Vara við ólöglegri sölu á heyrnartækjum

Mynd úr safni
Mynd úr safni Ásdís Ásgeirsdóttir

Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa heyrnartæki án ráðgjafar frá fagaðilum en borið hefur verið á því að slíkt tæki séu boðin til sölu af aðilum sem ekki hafa heimild til sölu á heyrnartækjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands

„Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi einstaklings,“ samkvæmt tilkynningu.

Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis. 

HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert