Sagði sérstaklega sótt að verkmenntun

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, gagnrýndi á Alþingi í dag fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þegar kæmi að framhaldasskólum. Sérstaka athygli vekti hversu hart væri gengið fram gagnvart þeim. Nemendum hefði fækkað um 916 sem gæti kallað á fækkun framhaldsskólakennara um allt að eitt hundrað.

„Það er eiginlega ótrúlegt þegar allt þetta er talið saman hversu hart gengið er fram. Þegar menn lýsa því yfir að búið sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, eðlilegt ástand hafi skapast, hvers vegna er gengið svona fram gagnvart framhaldsskólunum?“ sagði Árni Páll. Sagði hann skilaboð Sjálfstæðisflokksins í menntamálum einföld. Draga ætti úr vali og sérstaklega þegar kæmi að verknámi. Hins vegar væri ljóst að ekki væri nægur mannauður með framhaldsmenntun og sárlega skorti meiri verkmenntun.

„Því er hér haldið fram að sérstaklega sé sótt að framhaldsskólastiginu með frumvarpinu, en á þessu ári bættum við rekstrargrunn framhaldsskólanna með sérstakri fjárveitingu til þess að taka á rekstrarerfiðleikum sem ný ríkisstjórn tók í arf frá síðustu árum. Þá komum við með sérstakt 400 milljóna króna framlag til að styrkja rekstrargrunn framhaldsskólastigsins,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í svari sínu. Hins vegar væri stefnt að því að stytta nám í framhaldsskólum.

„Það er hins vegar alveg rétt að í menntamálum er unnið að því að stytta nám til háskólaprófs til þess að við Íslendingar færumst nær því sem gildir til dæmis hjá OECD-þjóðum og öðrum þeim sem við viljum bera okkur saman við og að fólk muni þannig í framtíðinni ljúka námi eftir til dæmis háskólagöngu fyrr en átt hefur við á Íslandi. Það mun auka framleiðni í landinu og er gríðarlega stórt og mikið menntamál en líka efnahagsmál.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert