Vilja skilgreina auðlindir Íslands

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að forsætisráðherra verði falið að „fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru“. Þetta er í fimmta sinn sem tillagan er lögð fram.

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að hugtakið auðlind sé víðfeðmt og nái til margra þátta samfélagsins. „Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins.“

Bent er á að í sumum tilfellum sé talið mögulegt að verðleggja náttúruauðlindir og þá sérstaklega réttinn til þess að nýta þær. Löggjafinn geti ákveðið að láta þá sem nýta auðlind greiða með einum eða öðrum hætti gjald til samfélagsins fyrir afnotin. Hvort sem er í formi skatta eða þjónustugjalda. Slík gjaldtaka þurfi að vera almenn og við framkvæmd hennar beri að gæta málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis.

„Leiðsögn markaðshagkerfisins, eða „ósýnilega höndin“ svonefnda, nær aðeins til þeirra gæða sem unnt er að kaupa og selja á markaði og til þess að úrræði eins og gjaldtaka verði tekin upp í einhverri mynd verða pólitískar og efnahagslegar forsendur að vera til staðar,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert