Með hárböndum til Kambódíu

Hjúkrunarfræðinemarnir sjö sem búa til hárbönd til styrktar Krabbameinsfélaginu og …
Hjúkrunarfræðinemarnir sjö sem búa til hárbönd til styrktar Krabbameinsfélaginu og ferðar sinnar til Kambódíu. Þær hvetja allar ungar konur til að fara í leghálsskoðun hið snarasta. Ljósmynd/ Heiða Rós Árnadóttir

Sjö hjúkrunarfræðinemar leggja hönd á plóg í árveknisátaki Krabbameinsfélags Íslands um mikilvægi leghálsskoðunar sem leið til að koma í veg fyrir krabbamein í leghálsi hjá ungum konum. Nemarnir selja hárbönd sem þær búa til sjálfar til styrktar Krabbameinsfélaginu og ferðar sinnar til Kambódíu þar sem þær munu sinna hjálparstarfi.

Veita aðstoð í Kambódíu 

Konurnar eru að ljúka þriðja ári sínu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og þyrstir í frekari reynslu á sviði hjúkrunar og það við aðrar aðstæður en búast má við hér á landi. Hafa þær skipulagt ferð til Kambódíu sumarið 2015 þar sem þær munu slást í hóp hjálparstarfsmanna og veita fátækum börnum heilbrigðistengda fræðslu og aðstoð. „Við munum fræða börn og almenning um hreinlæti, vatn og hvernig má koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma,“ segir Inga María Árnadóttir, formaður Curator félags hjúkrunarfræðinema og ein af konunum sjö. Ferðir sem þessar eru kostnaðarsamar og var því þörf á fjáröflun til að ferðin gæti orðið að veruleika.

Hárbönd til hjálpar

Konurnar hófu að búa til hárbönd sem slegið hafa rækilega í gegn. Þær leituðu til Krabbameinsfélagsins og vildu styrkja þeirra starf ásamt því að afla fjár fyrir ferð sína í þágu hjálparstarfa. Krabbameinsfélagið tók gríðarlega vel í framtakið og hóf sölu hárbandanna í vefsölu sinni og sölubásum.Konurnar segja viðtökurnar hafa verið framar vonum en hárböndin seldust upp þegar þær stóðu að sölubás með Krabbameinsfélaginu á dögunum. Af hverju seldu hárbandi renna kr. 500 til Krabbameinsfélagsins.

Forvarnir og fræðsla skipta öllu máli

„Leghálsskoðun er málefni sem á við allar ungar stúlkur,“ segir Inga og bætir við að þær séu áfjáðar í að leggja sitt á vogarskálarnar í fræðslu og almennri vakningu í þessum málum á meðal ungra kvenna þar sem þær séu sjálfar á aldrinum 22-30 ára. Sú elsta í hópnum hefur sjálf greinst með frumubreytingar og þekkir því á eigin skinni hve mikilvægt er að fara reglulega í skoðun. Inga segir þetta í takt við annað fræðslustarf nemendafélags hjúkrunarfræðinema sem kappkosta almennt að upplýsa fólk um ýmis heilbrigðistengd málefni sem það varðar. 

Hægt er að nálgast téð hárbönd og styrkja góð málefni í leiðinni á facebook-síðu Kambódíufaranna.

Hárböndin hafa vakið mikla lukku. Þau eru þó til í …
Hárböndin hafa vakið mikla lukku. Þau eru þó til í fleiri litum, bæði fyrir börn og fullorðna. Ljósmynd/ Inga María Árnadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert