Læknar 110 færri nú en árið 2009

mbl.is/Eggert

Heimilislæknar skora á ríkisstjórn Íslands og fjármálaráðuneytið að bjarga því sem bjargað verður í íslensku heilbrigðiskerfi og semja tafarlaust við lækna landsins um kjör.

Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi Félags íslenskra heimilislækna. Félagið telur óábyrgt af stjórnvöldum að rýra kjör lækna og „valda þannig frekari fækkun þeirra og brjóta niður íslenskt heilbrigðiskerfi“.

Greinargerð með ályktuninni:

Íslenskir læknar og heilbrigðiskerfið skapa gríðarleg verðmæti í þessu landi. Ekki bara persónuleg verðmæti fyrir Íslendinga, fjölskyldur, foreldra og börn heldur einnig hörð peningaleg verðmæti í aukinni þjóðarframleiðslu og beinhörðum peningum í ríkiskassann. Heilbrigðisráðherra gerir sér grein fyrir þessu og hefur lýst stuðningi við réttmæta kröfugerð lækna. Kröfugerð sem sett er fram til að rétta heilbrigðiskerfinu líflínu. Kröfugerð sem sett er fram til að laða sérfræðilækna til landsins. Kröfugerð sem sett er fram til að stöðva flótta lækna frá landinu frá ósamkeppnishæfum kjörum, miklu starfsálagi og slakri starfsaðstöðu. Frá hruni hefur verið sótt að læknum og kjör þeirra skert. Heimilislæknar voru fyrstu ríkisstarfsmennirnir sem sæta máttu 20% launaskerðingu í febrúar 2009 eða verða reknir ella úr starfi. Skerðing sem nú fimm árum síðar hefur ekki enn verið leiðrétt!

Launakjör lækna hafa rýrnað verulega á síðustu árum og í engu samhengi við dagvinnulaun annarra háskólastétta með sambærilega menntun. Þá er mikil óánægja meðal lækna með starfsumhverfi sitt. Nýútskrifaðir læknar fara fyrr en áður til útlanda í framhaldsnám með þeim afleiðingum að íslenskt heilbrigðiskerfi nýtur starfskrafta þeirra í byrjun framhaldsnáms mun skemur en áður var. Sömuleiðis hefur þessi óánægja þau áhrif að læknar sem lokið hafa sérfræðinámi erlendis skila sér enn verr en áður til læknisstarfa á Íslandi. Meðalaldur lækna í starfi á Íslandi hefur hækkað. Nýliðun í hópi sérfræðinga fer hratt minnkandi og er orðið mikið áhyggjuefni í fjölmörgum sérgreinum. Vaxandi hópur sérfræðinga starfar hluta úr ári hér á landi og hluta úr ári erlendis.

Samkvæmt gögnum LÍ hafa um 330 læknar með lækningaleyfi flutt af landi brott á síðustu fimm árum og tæplega 140 flutt aftur til landsins. Á síðustu fimm árum hafa því að meðaltali um 66 læknar flutt í burtu á ári hverju og um 28 komið til baka. Það þýðir að árlega hafa 38 fleiri læknar farið en komið til baka. Frá febrúar 2013 til mars 2014 fór 81 læknir af landi brott og 49 læknar komu til baka, þ.e. 32 fleiri læknar fluttu af landinu en komu til baka. Um 230 læknar með almennt lækningaleyfi bættust við á þessum 5 árum og um 90 þeirra hafa flutt af landi brott. Þetta þýðir að það eru rúmlega 110 færri starfandi læknar hér á landi í byrjun árs 2014 en árið 2009.

Á sama tímabili hefur fólki búsettu hér á landi fjölgað um 6.300, þ.e. úr rúmlega 319 þúsund í rúmlega 325 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert