Sveinbjörg Birna tekur sæti á þingi

mbl.is/Hjörtur

Fimm varaþingmenn tóku sæti á Alþingi í gær en samtals eiga nú sjö varaþingmenn sæti á þingi samkvæmt vefsíðu þingsins. 

Þeir varaþingmenn sem taka sæti á Alþingi í dag eru Álfheiður Ingadóttir sem tekur sæti fyrir Svandísi Svavarsdóttur, þingmann Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Björn Valur Gíslason sem hleypur í skarðið fyrir Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmann VG, Oddgeir Ágúst Ottesen sem tekur sæti fyrir Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason sem fyllir skarð Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sem tekur sæti fyrir Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins. Hún hefur ekki áður tekið sæti á þingi.

Tveir varaþingmenn til viðbótar tóku sæti á Alþingi á fimmtudaginn. Þau Anna María Elíasdóttir sem hljóp í skarðið fyrir Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra og þingmann Framsóknarflokksins, og Björn Leví Gunnarsson sem tók sæti fyrir Birgittu Jónsdóttur, kaftein Pírata. Anna María hafði þá ekki tekið sæti á þingi áður.

Þingfundur kemur saman klukkan 13:30 í dag þar sem meðal annars mun fara fram sérstök umræða um úthlutun menningarstyrkja. Málshefjandi verður Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, og til andsvara verður forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert