Bragi dæmdur fyrir meiðyrði

Meðal annars var haft eftir Braga að stjórnunarvandi væri á …
Meðal annars var haft eftir Braga að stjórnunarvandi væri á Götusmiðjunni að Brúarholti. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt átta ummæli sem Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu lét falla um Tý Þórarinsson, sem rak Götusmiðjuna. Bragi þarf að greiða Tý 400.000 krónur í miskabætur og málskostnað, 250.000 krónur. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. 

Týr Þórarinssonar rak meðferðarheimili Götusmiðjunnar að Brúarholti. Þar var boðið upp á meðferð fyrir börn og ungmenni. Heimilinu var lokað að beiðni barnaverndaryfirvalda, 25. júní árið 2010.

Í fréttum sem birtar voru á Vísi og á RÚV.is, 25. og 26. júní, voru höfð eftir Braga átta ummæli sem Týr stefndi Braga vegna. Meðal annars sagði Bragi að stjórnunarvandi hefði verið á meðferðarheimilinu, vandinn bitnað á meðferðinni og samskipti Týs við unglinga farið yfir öll velsæmismörk. Þá hafi Týr atað starfsmann óhróðri, hótað börnum líkamsmeiðingum og enginn vinnufriður verið fyrir Tý.

Týr krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að Braga yrði gerð refsing. Þá fór Týr fram á eina og hálfa milljón í miskabætur, 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, og að Bragi greiddi allan málskostnað, segir í frétt RÚV. 

Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert