Undirbúa byggð á lóð RÚV

Lóð Ríkisútvarpsins.
Lóð Ríkisútvarpsins.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í vikulegum tölvupósti sínum að erfið fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins hafi orðið þess hvati að hann og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hittust til að ræða möguleikann á byggð á lóð RÚV.

RÚV

„Erfiður fjárhagur RÚV hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Við útvarpsstjóri hittumst í vikunni til að ræða verkefni sem getur bæði styrkt þjóðarútvarpið okkar og borgina. Við ætlum sameiginlega að efna til skipulagssamkeppni um hina stóru lóð útvarpshússins, þannig að útvarpið geti grynnkað á skuldum en borgin nái markmiðum um þéttingu byggðar og fleiri leiguíbúðir. Spennandi mál sem er komið á fulla ferð eftir samþykkt borgaráðs á tillögu sem ég lagði fram um verklag og næstu skref í morgun,“ segir í tölvupóstinum.

Hlemmur og BSÍ

Dagur ræðir einnig svæðið kringum Hlemm og BSÍ.

Það er gaman að sjá gróskuna í kringum Hlemmsvæðið. Með styrkingu þess á undanförnum árum hafa sprottið upp íbúðahús, verslanir og þjónusta í og við Hlemm. Þessi uppbygging hefur líka styrkt efri hluta Laugarvegar sem er afar mikilvægt,“ segir í póstinum.

„Ég sá reyndar að eitt af betri kaffihúsum bæjarins, ætlar að opna í Brautarholti 2 í vetur, þar sem hljóðfæraverslunin RÍN var á sínum tíma. Við í Samfylkingunni vorum með kosningamiðstöð í sama húsnæði í vor þannig að það verður góð tilbreyting að geta drukkið almennilegt kaffi í Brautarholti! Annars samþykktum við í morgun að láta skoða breytingar á leiðakerfi Strætó með tilliti til framtíðarsamgangna í borginni. Þar verður BSÍ í stærra hlutverki en áður en Hlemmi verður þó áfram vel þjónað af öflugum almenningssamgöngum. Öflugri almenningssamgöngur eru málið,“ segir Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert