Nóg að gera hjá björgunarsveitum

mbl.is/Ómar

Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum á Austurlandi í dag vegna veðurs en samkvæmt vef Landsbjargar hafa þrjár sveitir hafa verið kallaðar út á svæðinu. 

Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum ferjaði um 30 manns til Egilsstaða eftir að rúta með starfsfólki Alcoa fór út af í Fagradal. Engin meiðsli urðu á fólki en mikil hálka er á veginum um dalinn.

Síðan fór björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði eystra á bát út á fjörðinn að sækja lok er fokið hafði af heitum potti. Vont var í sjóinn og var snúið við áður en lokið fannst.

Á Seyðisfirði fauk hluti af gafli húss í bænum. Björgunarsveitin Ísólfur var kölluð út og festi það sem eftir var af gaflinum og lokaði gatinu sem hafði myndast.

Jafnframt var kallað á björgunarsveitir í Víkurskarð á Norðurlandi í morgun en þar sátu nokkrir bílar fastir vegna veðurs.

Víkurskarð fært á ný

Rúta með starfs­mönn­um Alcoa fór út af

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert