Vill ekki mæta í aðra jarðarför

Sara Helena fékk meðferð á Stuðlum.
Sara Helena fékk meðferð á Stuðlum. Þórður Arnar Þórðarson

Sara Helena Bjarnadóttir er greind með tvíþættan geðsjúkdóm. Sagði hún frá upplifun sinni af geðsjúkdómum, fíkniefnavanda og heilbrigðiskerfinu á málþingi Geðhjálpar og Olnbogabarna.

Sara Helena hefur glímt við geðræna sjúkdóma frá því að hún var barn og var greind í kjölfar þess þegar hún reyndi að enda líf sitt með sippubandi á lóð skóla síns. Aukin vanlíðan varð svo til þess að Sara Helena fór að neyta fíkniefna sem varð til þess að henni var vikið úr skóla eftir að hún notaði vímuefni í tíma.

Sara Helena talaði við marga lækna um aðstæður sínar og vanlíðan en segir hún flesta tímana með geðlæknunum hafa farið í upprifjanir á aðstæðum hennar, í stað þess að ræða lausnir á vandamálinu sjálfu.

Send heim af spítalanum

Móðir Söru Helenu barðist fyrir því að koma henni í rétt meðferðarúrræði og fékk hún þá hjálp sem hún þurfti á að halda þegar hún fékk pláss á Stuðlum. Þar segist hún hafa verið fús til þess að þiggja hjálp. Eftir nokkra mánuði edrú fór Sara Helena að finna fyrir vanlíðaná ný. Vissi hún ekki hvert hún ætti að leita, enda var ekki lengur pláss fyrir hana á Stuðlum.

Sara Helena fór aftur í neyslu og endaði með drep í vörinni á spítala. Var hún send heim eftir meðhöndlun þar sem ekkert úrræði var í boði fyrir hana.

Biðin eftir langtímameðferð lauk loksins og fékk Sara Helena þá hjálp sem hún þurfti á að halda. Hefur hún nú verið edrú í þrjú og hálft ár. Segir hún allan sársaukann hafa verið þess virði. „Ég get sagt mína sögu og hjálpað öðrum. Ég get sagt hvað virkar og hvað ekki,“ segir Sara Helena og bætir við að hún biðji fyrir því að hún þurfi ekki að fara í aðra jarðarför ungmennis vegna skort á úrræðum fyrir ungt fólk með geðsjúkdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert