Hraunstraumurinn þokast til austurs

Hitamynd LANDSAT 8.
Hitamynd LANDSAT 8. Ljósmynd/Jarðvísindastofnun

Hraunstraumurinn frá eldgosinu í Holuhrauni er farinn að þokast til austurs. Hraunið er því að breikka, en flatarmál þess mældist í gær um 63 ferkílómetrar.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að flutningskerfi hraunsins til norðurs sé stíflað og þá finni hraunið nýja leið og brjótist út á nýjum stöðum. Núna rennið hraunið því til austurs.

Eldgosið hefur staðið í tæplega tvo mánuði. Þorvaldur segir að það komi sér ekki á óvart að það hafi staðið svona lengi.  „Það eru engin teikn um að það séu einhverjar stórvægilegar breytingar að eiga sér stað. Það er því líklegt að þetta haldi áfram á með svipuðum hætti. Ég hef á tilfinningunni að þetta gos geti orðið mjög langt.

Það er ekkert sem bendir til að það sé að draga úr framleiðni gosefna. Til að gosið stoppi þarf framleiðnin að fara niður fyrir 3 rúmmetra á sekúndu, en hún er núna á bilinu 50-100 rúmmetrar á sekúndu, eftir því hvernig þetta er reiknað. Það er því enn talsvert langt í að það hætti að gjósa,“ sagði Þorvaldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert