Fundað verður næst eftir helgi

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það varð enginn árangur af fundinum,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is en fundur í kjaradeilu lækna fór fram í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag og stóð hann yfir í eina klukkustund.

Ekki stendur til að funda aftur fyrr en næstkomandi mánudag klukkan 14.

Sigurveig segir það vissulega vera vonbrigði að ekki hafi tekist að stíga skrefi lengra í þeirri deilu sem nú er uppi en hún hafi hins vegar ekki verið vongóð fyrir fundinn. 

Aðspurð segir hún lækna hafa fengið tilboð um 3% launahækkun, en það sé hins vegar ekki nóg til þess að takast á við vandann.

„Þetta leysir ekki okkar vanda,“ segir hún og bendir á að tilboð sem þetta fái engan lækni sem starfandi er erlendis til þess að snúa aftur heim og manna stöður innan heilbrigðiskerfisins.  

„Við værum ekki að gera heilbrigðiskerfinu neinn greiða með því að fara þessa leið. Það eru nú margir læknar við það að fara og fáir sækja um þær stöður sem auglýstar hafa verið.“

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að stjórnvöld grípi inn í kjaradeiluna með lagasetningu kveður Sigurveig já við. „Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur af því en mér finnst það ekki hanga yfir okkur eins og er.“ Ákveði stjórnvöld hins vegar að grípa inn í kjaradeiluna og setja lög á verkfall lækna mun það að hennar sögn koma til með að hafa mjög skaðleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi.

„Það heldur ekki fólki á landinu. [...] Þetta eru mjög víðtækar breytingar sem við viljum gera á samningnum sem er gamall og þarf að uppfæra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert