Síminn hringdi stöðugt í morgun

Síminn hringdi stöðugt á heilsugæslustöðvunum Hvammi og í Hamraborg í …
Síminn hringdi stöðugt á heilsugæslustöðvunum Hvammi og í Hamraborg í Kópavogi í morgun en margir vildu endurnýja lyf og bóka tíma hjá læknum stöðvanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Síminn hringdi stöðugt á heilsugæslustöðvunum Hvammi og í Hamraborg í Kópavogi í morgun en margir vildu endurnýja lyf og bóka tíma hjá læknum stöðvanna. Verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands náðu til heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins á mánudag og þriðjudag.

Að sögn Sigríðar A. Pálmadóttur yfirhjúkrunarfræðings var fullbókað í tíma hjá læknum stöðvanna síðustu tvo daga og því hafi margir tímar fallið niður. Þeir sem áttu tíma fara nú aftast í röðina. Næsti lausi tími á Hvammi er í næstu viku en ekki fyrr en 10. nóvember í Hamraborg.

Yfirlæknar á stöðvunum sinntu aðeins bráðatilvikum og endurnýjuðu lífsnauðsynleg lyf á meðan verkfallið stóð yfir. 

Misstu af tímanum og fara aftast í röðina

Sigríður segir að flest símtölin í morgun hafi komið frá fólki sem vildi endurnýja lyfin sín og sennilega hafi ekki allir komist að en aðeins er tekið á móti beiðnum á milli 9 og 11. Hún gerir ráð fyrir að hugsanlega taki nokkra daga að vinna upp röskun síðustu tvo daga.

Heldur minna var að gera á stöðvunum síðustu daga en gert hafði ráð fyrir. Nokkuð dró úr álagi á hjúkrunarvaktinni sem er á stöðvunum alla daga frá 8 til 16 og komu fáir í bólusetningu vegna flensu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert