Höfðu fjögur ár til verksins

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

„Forgöngumenn þessa máls og þeirrar ályktunar sem hér er borin upp um að setja einhverja verkstjórn yfir ríkisstjórnina í þessu máli er það sama fólk og hafði fjögur ár til að koma byggingaráformum Landspítalans á einhvern annan og vitlegri stað en var þegar þessi ríkisstjórn tók við.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Katrín spurði að því hvort ekki væri rétt að efna til þjóðarsáttar um byggingu nýs Landspítala með aðkomu allra að borðinu og þar með talið stjórnarandstöðuna. Ekki aðeins hvernig spítalinn ætti að vera heldur einnig hvernig ætti að fjármagna hann.

„Á þessum skamma tíma sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur starfað er í fyrsta skipti lagt á fjárlögum fjármagn til þess að vinna að framgangi hönnunar spítalans. Það er merkur áfangi. Það tókst ekki á síðasta kjörtímabili vegna þess að þá var verið að rífast um það af þáverandi ríkisstjórnarflokkum hvort það ætti að vera með þetta í einkaframkvæmd eða opinberri framkvæmd,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert