„Hvar á ég að byrja?“

Mótmælin á Austurvelli.
Mótmælin á Austurvelli. mbl.is/Golli

Þau málefni sem brenna á mótmælendum á Austurvelli eru mörg og mismunandi. Yfirskrift mótmælanna er „Mótmælum aðgerðum ríkisstjórnarinnar“ en margir hafa þar einstök málefni í huga.

Kristín Lárusdóttir, tónlistarkennari, segir margt brenna á sér en einna helst bág kjör sinnar stéttar sem nú er í verkfalli. „Það er fyrir neðan allar hellur hvernig er komið fram við okkur og að við skulum ekki eiga rétt á sambærilegum launum og aðrir kennarar,“ segir Kristín. „Við erum komin neðar en leikskólakennarar. Á sama tíma geta ráðamenn státað sig af tónlistarlífinu, Hörpu, Sigurrós og Björk en svo vilja þeir bara höggva á ræturnar.

Páll Zophónías heldur á skilti sem á stendur „Hálendið er heilagt“.

 „Ég hef bara miklar áhyggjur af samfélaginu mínu og hvert það stefnir“ segir hann um ástæðu þess að hann mætti til mótmælanna og nefnir sérstaklega slæma forgangsröðun stjórnvalda. Hann segir hálendið sér sérlega mikilvægt sem og náttúruna alla. „Ég held að það mikilvægasta sem við eigum sé íslensk náttúra og við verðum að passa upp á hana.“

Auður Alfífa Ketilsdóttir, er einnig vopnuð skilti þegar blaðamann ber að garði en með öllu opnari skilaboðum. Á skiltinu stendur „Þessi ríkisstjórn, ég veit ekki hvar ég á að byrja...“ og telur Auður upp margar ástæður fyrir veru sinni á mótmælunum.

 „Þessi ríkisstjórn er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu, hún er að vinna fyrir ákveðna þrönga klíku fólks sem á peninga. Það sést til dæmis í aðförinni að heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu og afnám veiðigjaldsins sem eru mjög stór og skýr dæmi um það hvert þau vilja forgangsraða peningum,“ segir Auður.

Þegar blaðamaður hnippir í Björn Loga Þórarinsson hefur skarinn nýlokið við að kyrja orðið „lýðræði“ með hnefa á lofti undir stjórn Svavars Knúts. „Ég er að mótmæla ríkisstjórn landsins en sérstaklega stefnu þeirra í heilbrigðismálum. Ég er læknir og sé hvernig heilbrigðiskerfið er að molna niður,“ segir Björn. „Sumir sjúklingar hafa ekki efni á heilbrigðisþjónustu og neita sér um hana. Ég sé oft merki um þann ójöfnuð í mínu starfi og þess vegna er ég hér. “

Síðasti viðmælandi blaðamanns er ungur maður sem stendur rólegur framarlega í hópnum með skilti sem er harla ólíkt öðrum sem sjá má allt í kring. Hann heitir Þorsteinn Davíð Stefánsson og á skiltinu hans stendur „Lægri skatta!“ og „Meiri niðurskurð“.

„Ég er að mótmæla því að ríkisstjórnin hafi ekki gengið nógu langt í niðurskurði og hafi ekki lækkað skatta nógu mikið,“ segir Þorsteinn alvarlegur. Þorsteinn er sammála blaðamanni um að umkvörtunarefni hans séu afar ólík því sem aðrir mótmælendur hafa að segja. „Já, það má segja það en ég ákvað að koma hingað þar sem þetta eru mótmæli gegn ríkisstjórninni og ég er að mótmæla ríkisstjórninni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert