Krefjast aukinna fjárveitinga

Fulltrúar 44 félaga- og sjúklingasamtaka afhentu þingforseta áskorun til stjórnvalda …
Fulltrúar 44 félaga- og sjúklingasamtaka afhentu þingforseta áskorun til stjórnvalda í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Við blasir að það rekstrarfé sem gert er ráð fyrir í fjárlögum muni ekki duga til að Landspítalinn-háskólasjúkrahús geti veitt þá þjónustu sem lög kveða á um.“ Þetta kemur fram í ályktun 44 félaga- og sjúklingasamtaka um ástandið á Landspítalanum.

Í ályktuninni, sem var afhent þingforseta í morgun, er meðal annars fjallað um slæman aðbúnað á spítalanum, álag og fjárhagslegar þrengingar en þeir sem undirrita „skora á ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu til að tryggja að umhverfi sjúklinga, aðstaða starfsfólks og nema standist bæði lög og þann metnað sem íslensk þjóð vill sýna.“

Eldri borgarar eru áhyggjufullir

„Það er náttúrlega búið að vera að tala um langvarandi vanda innanhúss og aðstæður starfsfólks, aðstæður sjúklinga, aukna sýkingahættu. Það vantar tæki.. og að það skuli þurfa að safna fyrir næstum öllum tækjum sem koma inn á spítalann er mjög sérstakt,“ segir Þórunn H. Sveinbjarnardóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Hún segir heilmikinn kostnað fólginn í því að reka Landspítalann á tveimur stöðum en jafnvel áður en kreppan skall á hafi verið vitað að illa stæði, sérstaklega hvað varðaði tækjakost spítalans.

Þórunn segir ástandið rætt meðal eldri borgara. „Fólk hefur áhyggjur en það er líka ákveðin viðkvæmni hjá eldri borgurum þegar talað er um að þeir teppi rúm og annað slíkt. Þetta er bara ósköp einfaldlega þannig að við Íslendingar lifum lengur og þar af leiðandi verða sjúkrahúsdagarnir fleiri,“ segir hún. „En við erum ekki sátt við að það sé talað um okkur eins og við séum vandamál. Við tökum það nærri okkur. Vegna þess að við erum í velferðarsamfélagi og eigum að vera það.“

Þórunn segir augljóst að veita þurfi meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið, vandamálin sem þurfi að leysa séu mýmörg. Hún nefnir m.a. langa biðlista, t.d. í augasteinaaðgerðir. Hún segir eldri borgara hafa verulegar áhyggjur af stöðunni. „Svo verður fólk svolítið hrætt, ef þú horfir á landsbyggðina líka, þá er aðgengi að læknum þar.. það er búið að draga það saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert