Vilja svör um símahlustanir sérstaks saksóknara

Hreiðar Már Sigurðsson ræðir við Ólaf Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Hreiðar Már Sigurðsson ræðir við Ólaf Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð Al Thani-málsins stóð yfir á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Lögmenn Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, fara fram á að átta einstaklingar, þar á meðal starfsmenn sérstaks saksóknara, verði boðaðir í skýrslutöku fyrir dómi til að svara spurningum um símahlustanir embættisins.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars, segir í samtali við mbl.is, segir að tvær beiðnir hafi verið lagðar fram við þingfestingu vitnamáls, sem höfðað var á hendur ríkissaksóknara, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Ákæruvaldið andmælti því að þessar skýrslutökur færu fram. Dómari veitti ákæruvaldinu frest til 18. nóvember til að skila inn skriflegum athugasemdum og rökstyðja það á hvaða grundvelli andmælin eru reist. 

Afla gagna inn í Al Thani-málið

„Ég er með sjö einstaklinga á mínum lista og það eru nánast allt saman núverandi eða fyrrverandi starfsmenn sérstaks saksóknara. Svo eru þarna tveir einstaklingar sem hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík,“ segir Hörður.

„Það er ekkert launungarmál, að ætlunin er að taka skýrslur og afla upplýsinga sem tengjast þessum hlustunum meðal annars, það er ekki eingöngu það. En tilgangurinn með þessari beiðni er að afla gagna inn í málið sem rekið er í Hæstarétti, það er að segja Al Thani-málið.“

Þórólfur Jónsson, héraðsdómslögmaður sem fer með málið fyrir hönd Ólafs, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag, að óskað yrði eftir því að Eggert J. Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, yrði leiddur aftur fyrir sem vitni, auk þess sem tilgangurinn með málshöfðuninni væri að afla frekari gagna.

Margt óljóst

Hörður segir ýmislegt hafa nýverið komið fram í fjölmiðlum varðandi símahlustun embættis sérstaks saksóknara.

„Við búnir að vera með gögn og málsástæður inni í málinu sem að þessu lúta, alveg frá því að málið var flutt í héraði. En það eru samt nýjar upplýsingar sem hafa komið fram og ég vil fá úr því skorið hvernig nákvæmlega var haldið utan um þetta hjá embættinu með því leiða þá rannsakendur og aðra þá sem geta varpað ljósi á þetta [fyrir héraðsdómi].“

Aðspurður segir Hörður að meðal annars verði spurt út í hlustun á símtöl sakborninga við verjendur í málinu, sem hefur verið harðlega gagnrýnt. „Það liggur alveg fyrir og er staðfest - að mínu viti - meðal annars í gögnum að þetta var gert. Það virðist vera eitthvað misvísandi hvaða upplýsingar hafa komið fram hvernig nákvæmlega að þessu var staðið og að hvaða marki var hlustað á þessi samtöl. Ég ætla að fá menn til að mæta þarna og svara spurningum um það meðal annars.“

Hann kveðst binda vonir við að dómari muni taka afstöðu til þess hvort skýrslutökurnar muni fara fram eður ei síðar í þessum mánuði.

Hlutu þunga dóma

Í desember í fyrra dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur þá Hreiðar Má, Ólaf, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, sem er fyrrverandi yfirmaður Kaupþings í Lúxemborg, í fangelsi í tengslum við Al Thani-málið. Þeir voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.

Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður í fimm ára fangelsi, Magnús fékk þrjú ár og Ólafur fékk þriggja og hálfs árs dóm. Aldrei hafa svo þungir dómar fallið í efnahagsbrotamáli á Íslandi. Fjórmenningarnir áfrýjuðu dómnum til Hæstaréttar. 

Hörður segir aðspurður að Al Thani-málið verði flutt í Hæstarétti 26. janúar nk. Hann væntir þess að málflutningurinn standi að minnsta kosti yfir í tvo daga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert