Neyðarbraut ekki til

Aðflug að Reykjavíkurflugvelli.
Aðflug að Reykjavíkurflugvelli. Þórður Arnar Þórðarson

Ekki er til hugtak í löggjöf um Reykjavíkurflugvöll sem heitir „neyðarbraut“. Vinna er í gangi við að búa til nýjan nothæfisstuðul fyrir flugvöllinn en svo virðist sem að nýtingarhlutfall hans sé yfir 95% með tveimur flugbrautum. Þetta sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, á fundi tveggja þingnefnda í morgun.

„Mér sýnist að miðað við almenna notkun þá sé flugvöllurinn með tveimur flugbrautum sennilega nothæfur,“ sagði Björn Óli á sameiginlegum fundi atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefndar í morgun.

Hann svaraði spurningum frá nefndarmönnum ásamt þremur fulltrúum samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni.

Friðrik Pálsson frá samtökunum sagði að verði byrjað á framkvæmdum á Hlíðarendasvæðinu séu það óafturkræfar aðgerðir sem hafi gríðarlega áhrif á starfsemi flugvallarins með því að notagildi NA/SV-brautar sem hann nefnir „neyðarbraut“ verði skert. Hann skilji að Reykjavíkurborg hafi þurft að standa við samkomulag við Valsmenn. Hins vegar hefði verið hægt að koma byggingarmagni fyrir á svæðinu án þess að það skerti notkun flugvallarins. Þetta sé góð leið fyrir þá sem það vilja að mola undan flugvellinum.

Björn Óli benti á að hugtakið „neyðarbraut“ væri ekki til í löggjöf um flugvöllinn. Þá ræddi hann um áhættumat sem unnið hafi verið um flugvöllinn og stundum hafi verið vísað til í umræðu um völlinn. Samgöngustofa hafi hafnað niðurstöðu hópsins sem vann matið þar sem hún hafi virst byggð á huglægum forsendum og skort hefði töluleg gögn. Hópar af þessu tagi séu settir á fót um allar breytingar sem gerðar séu á flugvöllum og þeir eigi að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það hafi ekki tekist í þessum hóp en sterkar skoðanir hafi verið innan hans á NA/SV-brautinni.

Nú sé unnið að því að taka saman tölulegar upplýsingar um flugvöllinn. Þær liggi ekki fyrir svo virðist sem af notkunarstuðull vallarins fari yfir 95% og hann sé jafnvel hærri. Auðvitað sé hentugra að hafa fleiri brautir því þær gefi fleiri möguleika. Menn vinni hins vegar að því nú að komast að því hver raunveruleg töluleg áhrif lokunnar VA-brautar verða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert