Niðurfelling dragi ekki úr mótmælendum

Frá mótmælunum á Austurvelli síðasta mánudag.
Frá mótmælunum á Austurvelli síðasta mánudag. Júlíus Sigurjónsson

Sérstök áhersla verður lögð á ástand heilbrigðismála á Íslandi í mótmælum sem Jæjahópurinn svonefndi hefur boðað á Austurvelli kl. 17 í dag. Guðmundur Hörður Guðmundsson, einn skipuleggjenda mótmælanna, telur að kynning á skuldaniðurfellingum hafi ekki áhrif á vilja fólks til að mótmæla.

„Það var ákveðið í undirbúningshópi mótmælanna að fókusera á einstaka mál héðan í frá um leið og við mótmælum þessu almenna ástandi í samfélaginu. Í dag ætlum við að einbeita okkur að heilbrigðiskerfinu og ástandinu þar, aukna kostnaðarþátttöku almennings og þess háttar,“ segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, einn skipuleggjendanna.

Sami hópur stóð fyrir mótmælum á sama stað fyrir viku og mættu þá á sjötta þúsund manns. Guðmundur Hörður segir að þá hafi áhugi verið búinn að myndast á mótmælum eftir hrakfarir ríkisstjórnarinnar og ráðherra undanfarnar vikur og mánuði. Um fjögur þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmælin í dag á Facebook-síðu viðburðarins.

„Kannski hefur fólk fengið útrás þá en við finnum samt ennþá sterk viðbrögð og búumst við fjölmenni. Jafnvel þó að þetta sé kl. 17 á virkum degi að loknum vinnudegi virðist fólk hafa fullan hug á því að leggja það á sig að standa úti í kuldanum til að láta í sér heyra,“ segir Guðmundur Hörður.

Ríkisstjórnin tilkynnir um aðgerðir sínar til að fella niður hluta skulda sumra þeirra sem eru með fasteignalán í dag. Guðmundur Hörður telur að það muni ekki hafa áhrif á vilja fólks til að mótmæla.

„Það held ég ekki. Þetta er svo lítið brot af því sem er undir í samfélaginu í dag. Það er stór hópur fólks á leigumarkaði sem þetta snertir ekki neitt og manni sýnist á öllu að það séu helst eldri kynslóðirnar sem koma vel út úr þessari leiðréttingu. Ég held að unga fólkið upplifi það ekkert að það sé verið að koma því til hjálpar á húsnæðismarkaðinum. Svo hvílir staðan í heilbrigðiskerfinu þungt á mörgum, matarskatturinn og óheilbrigð stjórnmálamenning eins og hefur komið fram í máli innanríkisráðherra. Það er endalaust hægt að telja upp málefni sem fólk telur ástæða til að mótmæla,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert