„Allir verða að vera jafnir fyrir lögum“

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi.
Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi.

„Þjóðin kaus þessa leiðréttingu og ég hef ekki efast um lýðræðislegt umboð ríkisstjórnarinnar til að fara í þessar aðgerðir. Þar sem farið var í þær, verða allir að vera jafnir fyrir lögunum - þar á meðal ég. Hvað ég geri við aukið ráðstöfunarfé þegar greiðslubyrði lækkar veit ég ekki, en forgangsröðun mín verður vafalaust önnur en núverandi ríkisstjórnar.“

Þetta segir Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í framhaldi af öðrum ummælum á samskiptasíðunni þess efnis að hún fengi 2 milljónir króna lækkun á íbúðaláni sínu vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem hún þyrfti ekki á að halda. Aðrir væru í meiri þörf fyrir þá fjármuni. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hvatti Björk í gær á Facebook-síðu sinni til þess að staðfesta ekki lækkunina og velti því fyrir sér hvers vegna hún hafi sótt um lækkunina. Björk segir marga hafa spurt hana að því.

„Ég trúi á jöfnuð, því þar sem jöfnuður er meiri meðal fólks ríkir minni fátækt. Ég trúi ekki á góðgerðarsamfélagið sem byggir á því að þeir ríku verða alltaf ríkari og ákveða svo sjálfir að gefa af allsnægtum sínum til einhverra sem eru í þörf fyrir ölmusu. Í slíku samfélagi er ekki réttur fólks - heldur þiggur fólk eftir góðvilja aflögufærra samborgara sinna. Nei ég vil heldur beita ríkisfjármagni til að auka jöfnuð og minnka þannig fátækt. Í dag er fátækasti hópurinn á Íslandi barnafjölskyldur á leigumarkaði,“ segir Björk ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert