Ungt fólk gleymdist í leiðréttingunni

Stór hluti stúdenta er með verðtryggt námslán, sem mörg hver …
Stór hluti stúdenta er með verðtryggt námslán, sem mörg hver urðu fyrir sama „forsendubresti“ og húsnæðislánin sem verið er að lækka í skuldaniðurfellingunni. mbl.is/Golli

„Það hryggir mig hvað MÍN KYNSLÓÐ hefur gjörsamlega gleymst í umræðunni um skuldaniðurfellinguna. Ekki nóg með það, heldur einnig hvað hún hefur gleymt sjálfri sér.“ Þetta skrifaði 21 árs gamli hagfræðineminn Saga Guðmundsdóttir á Facebook-síðu sína í gær.

Margt ungt fólk hefur tjáð sig um skuldaniðurfellinguna á samfélagsmiðlum, og virðast margir ósáttir með forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Saga telur ekki nóg hafa verið fjallað um stöðu ungs fólks og því sé það ekki meðvitað um þá stöðu sem það stendur frammi fyrir. 

„Fólk á mínum aldri er greinilega ekki búið að kynna sér málin almennilega. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að þetta er ekki nógu aðgengilegt að hvað það er, en það virðist vera að við séum að láta okkur fyrir utan umræðuna. Ég held að þátttakan í síðustu alþingiskosningum endurspegli það,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Engin leið fyrir okkur að taka þátt á markaðnum“

Í stöðuuppfærslunni talar Saga um það hvernig hennar kynslóð sé sú sem rétt missti af því að geta „tekið þátt“ í þenslunni á fyrsta áratug aldarinnar. „Grautfúlt! Í hremmingunum í lok 2008 hurfu byggingakranarnir á svipstundu líkt og Aliber prófessor í hagfræði við Chicago-háskóla benti á. En það fól í sér að framkvæmdir við húsnæðisbyggingar stöðvuðust.“

Kynslóðin hafi þó haldið áfram að vaxa, eins og gengur og gerist þegar fólk fullorðnast, og margir því viljað, og jafnvel þurft, að flytja úr foreldrahúsum. „Það þýddi það að eftirspurnin eftir íbúðum var enn til staðar á meðan framboðið svaraði henni ekki. Þetta er einfalt hagfræðidæmi; verð fasteigna rýkur upp þegar eftirspurn eftir fasteignum eykst en framboð þeirra helst fast.“

Það hafi þó ekki verið fyrir alla að kaupa sér íbúð á slíkum tímum, en leigumarkaðurinn hafi einnig hækkað vegna sömu saka. „Leiga stendur, til að mynda, svo hátt í samanburði við grunnframfærslu námslána námsárið 2014-2015 sem er 149.459 á mánuði, að nánast engin leið er fyrir OKKUR námsmenn að taka þátt á markaðnum.“

Mun auka eftirspurnarhlið hagkerfisins

Þá talar Saga um skuldaniðurfellinguna sem „mun hella sér inn í ákveðin heimili með þeim hætti að auka eftirspurnarhlið hagkerfisins.“ Aukin eftirspurn muni hækka fasteignaverð enn frekar, og ekki muni það auka möguleika kynslóðarinnar í fasteignamálum.

Seðlabankinn muni svo að öllum líkindum koma til móts við þessa auknu verðbólgu með hærri stýrivöxtum. „Hærri stýrivextir gera það dýrara að taka lán. Þannig að VIÐ sem ættum að vera að taka okkar fyrstu stóru fjárfestingu, að kaupa fasteign, lendum í því að greiðslubyrðin af lánum eykst.“

Þetta muni gerast nema ungt fólk taki verðtryggt lán, sem flestir virðast enn gera. Um 70% nýrra lána séu 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. „Lán sem gjörsamlega aftengir fólk frá þróun höfuðstóls lána sinna.“

Erfitt verði fyrir ungt fólk að kaupa eignir

Þá segir hún ekki vera nóg með það að enn meiri hækkun verði á fasteignamarkaði og vextir hækki, heldur verði skuldir ríkissjóðs einnig hærri í náinni framtíð en ella, óháð því hvaðan peningarnir koma sem fjármagna munu leiðréttinguna. „Þá munum við þurfa að velja á milli hvort hækka eigi skattgreiðslur íbúa eða fjársvelta ýmsar opinberar stofnanir. Hvort sem er, þá munu þær niðurstöður ekki skila sér í auknum kaupmátt hjá OKKUR.“

Áfram verði því erfiðar aðstæður fyrir þennan hóp að leigja, að taka sína fyrstu fjárfestingu og hefja uppbyggingu á eiginfjárhlutfalli. „Sá möguleiki verður einfaldlega ekki til staðar fyrir OKKUR í náinni framtíð.“

Stúdentar orðið fyrir sama „forsendubresti“

Ýmsir hafa lagt orð í belg í umræðunni, og er meðal annars bent á það í athugasemdum við stöðuuppfærslu Sögu að við þetta bætist að stór hluti stúdenta sé með verðtryggð námslán, sem mörg hver urðu fyrir sama „forsendubresti“ og húsnæðislánin sem verið er að lækka. „En við erum víst búin að fá meira en nóg í gegnum námslánakerfið, svo við þurfum ekkert meira (samt eru íbúðalánasjóðslán af einhverjum ástæðum ekki undanskilin leiðréttingu þrátt fyrir að vera líka á ríkisniðurgreiddum kjörum).“

Þá hefur verið bent á það að leigusalar, sem hafa leigt ungu fólki íbúðir með óhagstæðum húsnæðislánum, hafi lengi þegið „leiðréttingu“ lána sinna úr vasa leigjendanna - og þiggi nú enn frekari leiðréttingu á sömu lánum.

Jafnframt hafa fjölmargir tjáð sig um málið á samfélagsmiðlinum Twitter, og tekið undir orð Sögu um að ungt fólk verði undir í umræðunni. 

Saga Guðmundsdóttir telur ekki nóg hafa verið fjallað um stöðu …
Saga Guðmundsdóttir telur ekki nóg hafa verið fjallað um stöðu ungs fólks.
Leiga stendur hátt í samanburði við grunnframfærslu námslána svo nánast …
Leiga stendur hátt í samanburði við grunnframfærslu námslána svo nánast engin leið er fyrir námsmenn að taka þátt á markaðnum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert