Blindir og heyrnarlausir í einangrun

Stjórnvöld hafa ekki brugðist við vegna málsins.
Stjórnvöld hafa ekki brugðist við vegna málsins. mbl.is/Eggert

Hagsmunafélag fólks sem er bæði blint og heyrnarlaust getur ekki haldið stjórnarfundi vegna þess að peningar eru ekki til fyrir táknmálstúlkun. Félagið getur því ekki beitt sér í helsta hagsmunamáli sínu, sem er að fá aukið fjármagn til túlkaþjónustu. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Fjallað var um málið í Kastljósþætti kvöldsins. Þar kom fram, að fjárlaganefnd Alþingis hafi á fundi sínum í morgun samþykkt að leggja það til að veittar yrðu 4,5 milljónir króna á fjáraukalögum til túlkaþjónustu.

Fram kemur, að fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sem áður var kallað daufblinda, þurfi táknmálstúlka fyrir öll samskipti þar sem þeir hvorki sjá né heyra. Félagssjóður samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra hafi greitt fyrir táknmálstúlkun sem þetta fólk þurfi í daglegu lífi, en sjóðurinn hafi verið tómur frá byrjun október.

Haft er eftir Snædísi Rán Hjartardóttur, stjórnarmanni í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, að  alþingismenn hafi lítinn skilning á þörfum fatlaðra. 

Þá kemur fram, að árlegu jólakaffi félagsins hafi verið aflýst þar sem ekki fengust peningar fyrir túlkaþjónustu. Á fundinum átti einnig að kynna hvaða leiðir séu færar þegar félagsmönnum er neitað um þjónustu.

Bent er á í frétt RÚV, að félagsmenn hafi skrifað velferðarráðherra, félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra vegna málsins. Engin svör hafi borist, þ.e. fyrr en í morgun þegar fjárlaganefnd Alþingis lagði til að veita 4,5 milljónir til þjónustunnar á fjáraukalaögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert