Tugum aðgerða frestað í dag

Tugum aðgerða hefur verið frestað í dag vegna verkfallsins.
Tugum aðgerða hefur verið frestað í dag vegna verkfallsins. Mynd/Wikipedia

Tuttugu og sjö aðgerðum hef­ur verið frestað á Land­spít­al­an­um í dag en verk­fallsaðgerðir lækna á rann­sókn­ar-, kvenna- og barna­sviði spít­al­ans hóf­ust á miðnætti í nótt og standa yfir til miðnætt­is annað kvöld.

Þá hefur 200 rannsóknum verið frestað, auk þess sem aðeins 130 úrlestrum úr rannsóknum var skilað í dag, en á venjulegum degi eru þeir um 400. Fjöldi dag- og göngudeildarkoma hefur jafnframt verið frestað.

Mikið álag hefur verið á bráðamóttökudeild spítalans og ljóst er að verkfallið hefur mikil áhrif. Líkt og í síðustu lotu er allri bráð þó sinnt, og ör­yggi sjúk­linga tryggt.

Hljóðið í starfsfólki þungt

Ólaf­i Bald­urs­syni, fram­kvæmda­stjóra lækn­inga á Land­spít­al­an­um, líst þunglega á áhrif verkfallsaðgerðanna á starfsemi spítalans í vikunni. „Þó við séum afar bjartsýnt fólk að eðlisfari þá er þetta mjög þungt,“ segir hann. „Það stafar meðal annars af því að það er nánast ekkert svigrúm sem við höfum.“

Ólafur segir mikinn niðurskurð hafa gert það að verkum að spítalinn eigi erfitt með að mæta óvæntum áföllum eins og því sem gengur yfir núna. Til að mynda sé nýting á rúmum og skurðstofum nánast hundrað prósent nú þegar.

Ekki ákjósanleg staða

Ólafur fundaði ásamt framkvæmdastjórn spítalans í dag, þar sem staðan var metin og næstu skref ákvörðuð. Hann segir verk­fallsaðgerðirn­ar hafa í för með sér mikla rösk­un á biðlist­um, en sjúk­ling­arn­ir sem missa sinn tíma, hvort sem það er tími í aðgerð eða annað, munu fá ann­an tíma. 

„Við endurröðun á biðlista er lögð áhersla á læknisfræðileg vandamál hvers og eins sjúklings, en það segir sig sjálft að slík vinna er ekki ákjósanleg staða,“ segir hann. 

Þungar áhyggjur af framhaldinu

Fyr­ir­hugaðar verk­fallsaðgerðir munu standa yfir fram í miðjan des­em­ber, ná­ist ekki samn­ing­ar fyr­ir þann tíma. Ólafur segist hafa þungar áhyggjur af framhaldinu, en segist vonast til þess að óvissunni fari að ljúka.

„Við óskum þess meira en nokkurs annars að deiluaðilar komist að samkomulagi sem allra fyrst,“ segir hann.

Boðað hef­ur verið til kjara­fund­ar á morgun klukk­an 16. 

Lögð voru niður störf á rann­sókn­ar-, kvenna- og barna­sviði spít­al­ans …
Lögð voru niður störf á rann­sókn­ar-, kvenna- og barna­sviði spít­al­ans í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert