Rætt um áhrif mengunar á heilsufar

Fjölmennt var á fundi Almannavarna um áhrif brennisteinsdíoxíðsmengunar frá eldgosinu í Holuhrauni sem haldinn var í höfuðstöðvum Veðurstofu Íslands fyrr í dag. Þar ræddu sérfræðingar frá Veðurstofunni, Umhverfisstofnun, Embætti Sóttvarnalæknis og Vinnueftirliti ríkisins um áhrif mengunarinnar á heilsufar, mælingar sem verið sé að gera og spár.

Um 450 kg af brennisteini streyma frá eldstöðinni á hverri sekúndu sem þykir mikið þó mun meiri brennisteinn hafi til að mynda komið í Skaftáreldum. Engu að síður spýr gígurinn 20-60 þús. tonnum af brennisteinsdíoxíði á degi hverjum sem er gríðarlegt magn og til samanburðar má nefna að heildarlosun Evrópusambandsins er um 14.000 tonn á venjulegum degi.

Þetta kom fram í máli Vöndu Hellsing, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, en stofnunin hefur pantað 16 nýja mæla sem dreift verður um landið á næstunni til að þétta net loftslagsmæla á landinu. Magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) sem mælst hefur í andrúmslofti hefur aukist verulega eftir því sem liðið hefur á gosið og náði hámarki í byggð 26. október þegar það mældist yfir 21. þúsund míkrógrömm á rúmmetra (µg/m³)  á Höfn í Hornafirði. 

Vísindamenn hafa mælt 130.000 µg/m³ við eldstöðvarnar sjálfar en voru þá að sjálfsögðu búnir öndunargrímum. Magn brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti telst lífshættulegt fari það yfir 200.000 µg/m³.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, flutti erindi um áhrif SO2 mengunar á líkamann sem til að byrja með veldur ertingu í augum, nefi og koki. Best sé að anda rólega í gegn um nefið komist maður í tæri við SO2 mengun þar sem bakteríur og önnur efni í nefi og koki nái að binda SO2 niður gera það óvirkt.

Hann segir algengt að fólk spyrji út í áhrif mengunarinnar á börn. Ekki hafi verið sannað að mengunin hafi meiri áhrif á þau en þau fái þó að njóta vafans og sé haldið inni ef gildi SO2 hækkar verulega í andrúmslofti. Afar persónubundið sé hversu mikil mengun þurfi að vera til að hún fari að valda einkennum hjá fólki en yfirleitt komi þau fljótt fram og hverfi að sama skapi fljótt. Langtímaeinkenni séu þó minna rannsökuð.

Fundinn má horfa á í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert