Brauðréttur fyrir útsendingu

Gerður Unndórsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson hvíla sig milli …
Gerður Unndórsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson hvíla sig milli rétta. mynd/Sigga Lund

„Þetta er virkilega góður brauðréttur, þar sem niðursoðnar ferskjur kallast skemmtilega á við beikon og skinku,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson um leið og hann sleikir út um á heimili hjónanna Gerðar Unndórsdóttur og Vilhjálms Einarssonar á Egilsstöðum. „Ekkert sameinar fólk betur en heitur brauðréttur.“

Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes eru aftur á leiðinni í loftið. Að undanförnu hafa verið tilraunaútsendingar hjá útvarpsstöðinni K100 á Egilsstöðum og á þriðjudag flugu Simmi og Jói austur með aðalstykkið í sendinn og nú er allt tilbúið fyrir fyrstu útsendingu þáttarins Simma og Jóa á föstudagsmorgun. „Þetta er fáránlega skemmtilegt,“ segir Simmi um þáttagerðina í útvarpinu. „Það togar í mann að byrja aftur enda er þetta ávanabindandi og við söknuðum þess.“

Jói tekur í sama streng og leggur áherslu á að þótt yfirskinið hafi verið að fara með sendinn austur hafi aðalatriðið verið að koma við hjá Gerði og Vilhjálmi í Útgarði og smakka brauðrétt, sem hann hafi reyndar óskað eftir að fá við komuna. Rétt eins og hann hafi lagt mikið upp úr því að Gerður væri fastur liður í útvarpsþáttunum eins og í fyrri þáttum.

Útvarpsþáttur þeirra var áður á laugardagsmorgnum. Þeir segja breytinguna viðbrigði. „Aðalatriðið er að þetta sé létt og aðgengilegt og svolítið heimilislegt,“ segir Jói.

Á þekktum nótum

Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Skjásins, fékk piltana til þess að snúa aftur í útvarp en þeir voru áður með vinsælan, samnefndan þátt á Bylgjunni í fimm ár. Simmi segir að þeim hafi þótt hugmyndin fjarstæðukennd í byrjun en síðan hafi þeir ákveðið að kýla á þetta.

Þátturinn verður byggður upp á svipaðan hátt og áður. Hann verður í loftinu í beinni útsendingu á föstudögum kl. 9-12 og endurfluttur á sama tíma daginn eftir. Félagarnir gera upp fréttir vikunnar með sínu nefi og leika sér að þeim málefnum sem koma upp hverju sinni. Gerður Unndórsdóttir verður á sínum stað og þeir halda áfram að semja nýja texta við þekkt dægurlög. Atriðið hver er maðurinn? heldur áfram rétt eins og söngljóðalesturinn, þar sem íslenskir dægurmálatextar eru brotnir til mergjar. „Við höfum líka þróað með okkur nýja dagskrárliði sem byggjast á leikgleði,“ segir Simmi.

Sér um ljóðalesturinn

Gerður Unndórsdóttir varð við ósk Jóhannesar Ásbjörnssonar um að gefa honum brauðtertu við komuna. „Hún er best splunkuný úr ofninum,“ sagði hún rétt áður en Sigmar og Jóhannes mættu í Útgarð í fyrradag

Þáttur Simma og Jóa á K100 hefst á morgun. Tíðnisvið K100 í Reykjavík, á Suðurlandi, Ísafirði og Egilsstöðum er FM 100.5. Á Akureyri er tíðnin FM 93.3 og FM 101.5 í Bolungarvík. Gerður sér um ljóðalesturinn í þættinum enda lagði Jói áherslu á að sendir yrði settur upp á Egilsstöðum til þess að hún gæti hlustað á þáttinn. „Þetta eru skemmtilegir strákar og ég er glöð ef þeir geta notað mig eitthvað,“ segir Gerður, sem getur samt ekki verið í fyrsta þættinum. „Ég verð tilbúin í næstu viku,“ segir hún og að sjálfsögðu hlæjandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert