Hnotubrjóturinn í Hörpu

Dansflokkurinn St. Petersburg Festival Ballet, sem sýndi Svanavatnið í Hörpu í fyrra, snýr aftur um helgina og sýnir Hnotubrjótinn við tónlist Tsjaíkovskíjs, sem leikin verður af Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Um er að ræða fimm sýningar í allt; eina í kvöld, tvær á laugardag og tvær á sunnudag. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur með dansflokknum. Hann þykir einkar glæsilegur enda skipaður fremstu listdönsurum ballettsins í St. Pétursborg og dönsurum úr úrvals dansflokkum.

Á vefsvæði Hörpu er að finna eftirfarandi lýsingu á ballettinum:

„Á aðfangadagskvöld fær María fallegan hnotubrjót að gjöf frá hinum dularfulla Drosselmeyer. Atburðarásin tekur óvænta stefnu þegar leikföngin undir jólatrénu lifna við og inn koma mýs í einkennisbúningum. Hnotubrjóturinn breytist í prins og leiðir Maríu inn í ævintýraland þar sem ýmislegt óvænt gerist. Tónlist Tchaikovskys er ein sú eftirminnilegasta af þeim ballettum sem samdir hafa verið. Í verkinu eru margar laglínur sem flestir þekkja vel og halda upp á.“

Börn 12 ára og yngri fá helmingsafslátt í miðasölu Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert