500 útköll síðasta sólarhringinn

Gluggar bortnuðu á ýsmum stöðum í óveðrinu í gær og …
Gluggar bortnuðu á ýsmum stöðum í óveðrinu í gær og í nótt. Ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Síðasti sólarhringur hefur verið annasamur hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Alls tóku 578 sjálfboðaliðar frá 36 einingum þátt í aðgerðum og var tæplega 500 aðstoðarbeiðnum sinnt. Verkefnin voru allt frá því að negla fyrir brotna glugga upp í að tryggja þök sem voru við að fjúka.

Verkefni björgunarsveita voru flest á suðvesturhorninu, á Snæfellsnesi, í Eyjafirði og Skagafirði. Fjórðungur allra verkefna var á Reykjanesinu. 

Jón Svan­berg Hjart­ar­son, fram­kvæmda­stjóri Slysa­varn­a­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar, segir annríki hafa verið mikið, en stóri hvellurinn sé genginn yfir. „Við erum samt sem áður á varðbergi og okkar einingar verða líklega áfram í einhverjum verkefnum fram eftir degi.“

Jón segir verkefnin hafa verið af ýmsum toga og megi þar nefna fjúkandi þakplötur, ruslagáma, ruslatunnur, trampólín, skúrþök, tré og hvaðeina. Þá hafi hurðir fokið upp og gluggar brotnað á ýmsum stöðum. 

Hefði verið hægt að fyrirbyggja tjón

Í gær áður en veðrið skall á fóru björgunarsveitir víða í fyrirbyggjandi aðgerðir í sínu byggðarlagi og virðist sem það hafi skilað góðum árangri þar sem það var gert.

Jón segir þó vissulega hafa verið mögulegt að fyrirbyggja enn frekar það tjón sem varð á ýmsum stöðum. „Þetta er ákveðið hugsunarleysi. Það var búið að vara við þessu í nokkra daga en einhverra hluta vegna kemur þetta fólki alltaf á óvart,“ segir hann. „Það er leiðinlegt að fólk hugsi ekki meira um það að lausir munir geta valdið skaða á eignum annarra og jafnvel á fólki.“

Jón segir stórhættulegt að vinna í svona veðri en þeir björgunarsveitarmenn sem hafi sinnt útköllum hafi þó tryggt öryggi sitt og félaga sinna áður en farið var út í aðgerðir. Enginn slasaðist í björgunaraðgerðunum, sem gengu almennt vel.

578 björgunarsveitarmenn hafa sinnt 500 útköllum síðasta sólarhringinn.
578 björgunarsveitarmenn hafa sinnt 500 útköllum síðasta sólarhringinn. Ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Þeir björgunarsveitarmenn sem sinntu útköllum tryggðu öryggi sitt og félaga …
Þeir björgunarsveitarmenn sem sinntu útköllum tryggðu öryggi sitt og félaga sina áður en farið var út í aðgerðir. Ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Mikið tjón varð á ýmsum stöðum í óveðrinu.
Mikið tjón varð á ýmsum stöðum í óveðrinu. Ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert