Arfavitlaust veður í kortunum

Búast má við ofsaveðri á austurhelmingi landsins.
Búast má við ofsaveðri á austurhelmingi landsins. mbl.is/RAX

Búast má við vonskuveðri, norðaustan 18 til 23 m/s og snjókomu, á Vestfjörðum og annesjum nyrst í kvöld. Þegar líða tekur á nóttina mun hvessa um allt land og spáir Veðurstofa Íslands 23 til 32 m/s um landið austanvert á morgun.

Er jafnframt gert ráð fyrir talsverðri snjókomu og skafrenningi á Norður- og Austurlandi. 

„Milli klukkan sex og níu í fyrramálið mun gera arfavitlaust veður á austurhelmingi landsins og verður þetta nær ofsaveðri,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en í ofsaveðri er, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Veðurstofunnar, hætta á miklum skemmdum á mannvirkjum auk þess sem útivera á bersvæði er hættuleg.

„Það fylgir þessu töluverð ofankoma. Þar sem að vindur steypist ofan af Vatnajökli og niður á Suðausturland verða að auki sérstaklega slæmar hviður,“ segir Óli Þór en þar má reikna með að vindhviður fari yfir 50 m/s.  

Má því gera ráð fyrir töluverðri ófærð á austurhelmingi landsins á morgun. „Það verður ekki bara erfitt að fara á milli landshluta heldur verður það í raun útilokað,“ segir Óli Þór.

Versta veðrið í nótt verður sem fyrr segir á Vestfjörðum með 18 til 23 m/s sem síðar færist suður með Vesturlandi og austur með Norðurlandi. Snemma í fyrramálið hvessir talsvert á austurhelmingi landsins umfram það sem verið hefur um nóttina og má búast við að meðalvindur verði á bilinu 23 til 32 m/s, sem jafngildir 10 til 11 vindstigum. Geta hviður farið yfir 50 m/s. Fylgir þessu einnig talsverð snjókoma, einkum þó norðaustan- og austanlands.

Veðurstofa Íslands gerir ekki ráð fyrir að veðrið fari að ganga niður á austurhelmingi landsins fyrr en undir morgun á mánudag.

Óli Þór segir vert að hafa í huga að í svona veðurhæð með ofankomu er skyggni nánast ekkert og því útilokað að ferðast. Má eins búast við að vegir verði ófærir á mjög skömmum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert