Áfram unnið að smíði Vestmannaeyjaferju

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. mbl.is/SBS

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að haldið verði áfram undirbúningi að smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Innanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti verður falið í samráði við Vegagerðina og Vestmannaeyjabæ að skilgreina og meta hvernig verkefnið verður best fjármagnað og hvaða valkostir séu hagkvæmastir varðandi útboð og eftir atvikum rekstur nýrrar ferju.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra lagði málið fyrir ríkisstjórn í morgun og er gert ráð fyrir að niðurstöðum athugunarinnar verði skilað fyrir 15. febrúar og málið þá aftur lagt fyrir ríkisstjórn.

Í minnisblaði ráðherra kemur fram að umtalsverður olíukostnaður sparist með því að taka í notkun nýja ferju sem gert er ráð fyrir að sigli í Landeyjahöfn árið um kring og að jafnframt lækki mjög kostnaður við dýpkun Landeyjahafnar. Með þessu sparast verulegur kostnaður sem fellur til vegna siglinga Herjólfs til Þorlákshafnar og ljóst þykir að veruleg samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga og aðra verði með reglulegum siglingum til Landeyjahafnar.

Samtals er gert ráð fyrir að þessir tveir liðir lækki um nálægt 380 milljónir króna á ári miðað við núverandi kostnað með rekstri Herjólfs.

Athugun ráðuneytanna í samráði við Vegagerðina og Vestmannaeyjabæ mun beinast að því hvaða fjármögnunarmöguleikar eru fyrir hendi og er með þessari tillögu vonast til að ýta megi málinu farsællega áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert