Margir fastir í úthverfum

Veðrið er að skána á höfuðborgarsvæðinu, skyggnið er að verða betra og hiti er kominn upp fyrir frostmark. Bleyta er komin í snjóinn á láglendi en síður í efri byggðum þar sem er meiri vindur. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni og Vegagerðinni.

Lögreglan segir að töluvert sé um útköll vegna bíla sem sitja fastir í snjónum í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu. „Við minnum ökumenn á að vera ekki á ferðinni nema nauðsyn krefji og aka þá styðstu leið sem í boði er. Víða í úthverfum er mjög þung færð og tæpast fyrir fólksbíla, hvað þá illa búna fólksbíla,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Björgunarsveitir virðast vera að anna útköllum en m.a. er búið að notast við snjóbíl, sem verður að teljast óvanalegt. 

Fífuhvammsvegur, stofnbrautin upp í Vatnsendahverfi í Kópavogi hefur verið opnuð. Enn er illfært um íbúagötur í efri byggðum Kópavogs. Unnið er að því hörðum höndum að ryðja götur í Kópavogsbæ og hefur allt tiltækt lið verið kallað út. Allar stofnleiðir um Vesturbæ og Austurbæ í Kópavogi hafa verið mokaðar og einnig í Smárahverfi. Þungfært er enn víða í íbúagötum í neðri byggðum Kópavogs.

Svo er það bara næsta lægð

„Svo er það bara það næsta, lægðin fylgir á eftir skilunum og kemur með suðvestanröst með krapa og krapaéljum. Það gæti orðið dálítið leiðinlegt í þessum éljum í fyrramálið en vonandi blotnar nóg seinni partinn til að binda þennan snjó sem kominn er þannig að hann verði ekki á hreyfingu í fyrramálið,“ segir Einar.

Gert er ráð fyrir að vindur snúist í suðvestan 8-13 m/sek með éljum í kvöld, styttir upp NA-lands í nótt. Suðvestan 15-23m/sek  S- og SV-lands í nótt, lægir smá saman á morgun. Frost yfirleitt 0 til 5 stig á morgun.

Flestar aðalleiðir opnar

Búið er að opna Reykjanesbraut en þar er hálka einnig er búið að opna Kjalarnesið og Hafnarfjall en þar eru hálka eða hálkublettir og óveður.

Flestar aðalleiðir í grennd við höfuðborgarsvæðið eru að opnast þó er en lokað Grindavíkurvegur og Suðurstrandarvegur; og á Mosfellsheiði og eins frá Rauðavatni austur yfir Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli.

Stórhríð er á utanverðu Snæfellsnesi, ófært á Vatnaleið og þar fyrir vestan á norðanverðu nesinu, eins á Útnesvegi og Fróðárheiði. Ófært er á  Holtavörðuheiði og þungfært í norðanverðum Hrútafirði . Annars éljar eða skafrenningur um mest-allt Vesturlandi og alls staðar er snjóþekja eða hálka.

Veður er einnig að versna á Vestfjörðum, stórhríð er á Klefaheiði, Mikladal og Hálfdáni - og vegur ófær. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Klettsháls, og í Ísafjarðardjúpi. Snjóþekja og stórhríð er á Flateyrarvegi. Annars staðar er snjóþekja eða hálka og vaxandi ofankoma og skafrenningur.

Það er snjóþekja og hálka á flestum vegum á Norðurlandi og versnandi veður. Þæfingsfærð og stórhríð er í Húnavatnssýslum og á Skagastrandarvegi. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli, á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Vegurinn um Dalsmynni er lokaður. Snjóþekja og stórhríð er á Mývatnsöræfum en snjóþekja og óveður er á Möðrudalsöræfum.

Frá Kirkjubæjarklaustri og vestur fyrir Vík er þæfingsfærð og snjókoma og óveður við Hvamma.

Á Austur- og Suðausturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á velflestum vegum.

Mörg útköll vegna umferðaróhappa

Mikið hefur verið að gera hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í dag, þá sérstaklega í sjúkraflutningum. Sjúkrabílar hafa átt erfitt með að komast leiðar sinnar og því hefur starfið gengið hægar. 

Þá hafa einnig verið mjög útköll vegna umferðaróhappa en enginn hefur slasast alvarlega í þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert