Tvö þúsund manns í Bláfjöllum

Frá Bláfjöllum
Frá Bláfjöllum

Tæplega tvö þúsund manns renndu sér á skíðum í Bláfjöllum í dag, en gott veður og skíðafæri lék við skíðafólk. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, segir að aðsóknin hafi verið fín „miðað við að það sé korter í jól.“ Hann segir þó ljóst að margir noti síðustu dagana fyrir jól frekar í jólagjafakaup heldur en að sækja í fjöllin.

 „Við skjótum á að í kringum 1500 til 2000 manns hafi rennt í gegn í dag,“ segir Einar, en diskalyftur á Suðursvæðinu, Kóngurinn, barnalyftur og töfrateppin voru opin í dag. Á morgun er gert ráð fyrir að opið verði frá tvö til níu um kvöldið. Næst verður svo opið annan í jólum.

Skíðasvæðið opnaði í fyrsta skiptið á árinu á föstudaginn, en það er rúmlega mánuði seinna en í fyrra þegar opnað var 18. nóvember. Einar segir að kortasala hafi þegar farið vel af stað og greinilegt að margir séu spenntir fyrir skíðatímabilinu.

Í dag var einnig lögð þriggja kílómetra braut fyrir skíðagöngufólk, en Einar segir að reynt verði á morgun að leggja lengra spor upp á heiði. Það verði þó ekki gert fyrr en í björtu á morgun.

Uppfært kl 20:42: Upphaflega kom fram að skíðasvæðið væri opið á Þorláksmessu, en svo er ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert