Strókurinn gæti heillað ferðamenn

Á næstu dögum verður svæðið kælt niður og svo settur …
Á næstu dögum verður svæðið kælt niður og svo settur loki á holuna. Mynd/Hreinn Hjartarson

Vel er hægt að hugsa sér að skutlast með ferðamenn upp að nýja stróknum sem gýs upp úr borholu Landsvirkjunar við Þeistareyki. Þetta segir Rúnar Óskarsson, eigandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Fjallasýnar, en hann ætlar á morgun með hóp gesta að skoða strókinn og aðstæður þar í kring.

Eins og mbl.is greindi frá í gær nær gufustrókurinn allt að 100 metra upp í loftið, en það er talsvert hærra en Geysir gaus á sínum tíma.

Rúnar segir þetta spennandi og sérstaklega í ljósi þess að aðeins er um tímabundinn viðburð að ræða. Landsvirkjun áformar að kæla holuna niður í byrjun janúar og koma fyrir loka sem myndi stoppa gosið. 

Fáir eru jafn vel að sér um svæðið og Rúnar og segir hann að þeir séu tilbúnir í slíkar ferðir strax ef fyrirspurnir berist frá ferðamönnum eða öðrum ferðaskipuleggjendum. Það þurfi þó að hafa í huga að um stutt tímabil sé að ræða.

Frétt mbl.is: Örugglega fallegra en Geysir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert