Halda upp á jólin á náttfötunum

Jólin eru afslöppuð hjá Elísu.
Jólin eru afslöppuð hjá Elísu. Mynd úr einkasafni

„Við vorum með litla krakka og á aðfangadagskvöld lá maður yfirleitt á stofugólfinu í trylltum æsingi að setja saman Lego. Fyrir um sex árum síðan hugsaði ég bara að ég gæti ekki haft aðfangadagskvöld svona. Það var alltaf rosalegt stress og ekkert skemmtilegt,“ segir Elísa R. Ingólfsdóttir en hún er með nokkuð óhefðbundnar jólahefðir á aðfangadagskvöld.

Elísa hefur haldið upp á jólin með fjölskyldu sinni og systur sinnar í mörg ár. Fimm börn eru í hópnum og var því oft skrautlegt og jafnvel erfitt að halda börnunum rólegum fram yfir mat áður en þau fengu að opna pakkana.

„Ég fór svona að spá hvernig við gætum gert kvöldið afslappaðra og ræddi það við systur mína. Við ákváðum að bera undir hópinn hvernig það væri að opna gjafirnar á undan matnum. Okkur fannst mikilvægt að gera þetta ekki nema allir væru sáttir og öllum leist ótrúlega vel á þetta,“ segir Elísa. 

Fjölskyldurnar prófuðu þetta nýja fyrirkomulag og gekk það eins og í sögu. Klukkan sex var borðaður möndlugrautur og svo hafist handa við að opna pakkana. „Við borðuðum kvöldmatinn ekki fyrr en á milli klukkan níu og tíu,“ segir Elísa. „Það var reyndar alveg ótrúlega fyndið. Elstu börnin tvö áttu ekki til orð yfir jólamatnum og voru bara mjög hissa að við hefðum ekki áður haft svona góðan mat á aðfangadagskvöld. Það var auðvitað alltaf sami matur en þau höfðu bara ekki tekið eftir því og voru jafnvel ekki með lyst út af pakkaæsingnum.“ 

Næstu jól var afslöppunin tekin skrefinu lengra. „Það voru allir svo ánægðir með þetta og Nökkvi, systursonur minn, stakk upp á því að taka þetta skrefinu lengra og vera öll í jólanáttfötum. Þannig að rétt fyrir klukkan 18 er maður ekki að strauja skyrtuna heldur að koma sér í náttfötin,“ segir Elísa og hlær.

Hún bætir við að þau séu yfirleitt í náttfötum í fínni kantinum. Eiga þau öll nokkur sett af jólanáttfötum og stundum hafa þau einnig verið með jólasveinahúfur.

„Við eigum rosalega afslappað og yndislegt kvöld saman á náttfötunum. Þessi breyting hefur verið rosalega ánægjuleg fyrir okkur öll,“ segir Elísa. „Þetta var stundum svo mikið stress og hasar en núna brosum við bara út að eyrum. Mér fannst aðfangadagskvöld ekki beint besta kvöldið til þess að kenna börnunum mínum þolinmæði. Svona eru allir miklu glaðari.“

Elísa telur líklegt að hefðin haldist um ókomin ár. 

„Elstu börnin okkar eru 15 og 18 ára og þau hafa ekki talað um að breyta þessu til baka. Við systir mín sjáum okkur fyrir okkur ennþá í jólanáttfötunum að hafa það kósí þegar við erum sjötugar.“

Jólamaturinn smakkast jafnvel betur á náttfötunum.
Jólamaturinn smakkast jafnvel betur á náttfötunum. Mynd úr einkasafni
Foreldrar Elísu með þeim á jólunum. Að sögn hennar eru …
Foreldrar Elísu með þeim á jólunum. Að sögn hennar eru allir 60 ára og eldri eru undanþegnir náttfatareglunni. Mynd úr einkasafni
Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert