Gamlárshlaup ÍR haldið í 39. skipti: Einskonar árshátíð hlaupara

Gamlárshlaup ÍR
Gamlárshlaup ÍR . Ljósmynd Torfi Leifsson.

Gamlárshlaup ÍR verður haldið í 39. sinn á gamlársdag en þátttakendur hlaupa tíu kílómetra vegalengd. Hlaupið er á meðal stærstu hlaupaviðburða sem haldnir eru hér á landi og er fastur liður í lífi margra hlaupara og hlaupahópa, segir Inga Dís Karlsdóttir, einn skipuleggjenda gamlárshlaupsins. Hefð er fyrir því að fólk mæti í búningum í þetta hlaup en hver og einn mætir auðvitað á eigin forsendum. Þó að margir hlaupi sér til skemmtunar og félagsskaparins vegna eru aðrir sem mæta íklæddir keppnisskapinu og reyna að bæta sig eða ná settu hlaupamarkmiðið fyrir lok árs.

Stórafmæli á næsta ári

Inga Dís hefur komið að skipulagningu gamlárshlaupsins og Víðavangshlaups ÍR í þrjú ár en bæði hlaupin fagna stórafmæli á næsta ári. Þá verður víðavangshlaupið, sem alltaf fer fram á sumardaginn fyrsta, haldið í 100. sinn og gamlárshlaupið í 40. skipti.

„Það sem er svo magnað við þetta hlaup að þrátt fyrir vont veður eða aðstæður er þátttaka ávallt mjög góð, hlaupið skipar það stóran sess í hlaupamenningunni. Það sem er einkennandi fyrir gamlárshlaupið er að það tíðkast hjá mörgum hlaupahópum að gera sér glaðan dag. Hóparnir hittast í heimahúsum eða á kaffihúsi í bænum eftir hlaupið og fá sér kampavín eða kakó og fara yfir hlaupaárið sem er að líða,“ segir Inga Dís en segja má að þetta sé einskonar árshátíð hlauparanna.

Upp úr þessari hátíðar- og gleðistemningu spratt sú hefð að hlauparar fóru að mæta í búningum. Þetta gerðist upp úr 1998, þegar brautinni var breytt þannig að rásmark og endamark var frá Ráðhúsinu í stað gamla ÍR-heimilisins við Túngötu. Búningahefðin er því sjálfsprottin og tengist bara áramótastuðinu. „Þeim sem mæta í búningum hefur fjölgað ár frá ári og nú er þetta orðinn ansi stór hluti af hlaupinu þar sem heilu hlaupahóparnir taka sig jafnvel saman,“ segir Inga Dís og eins og meðfylgjandi myndir bera með sér setja skrautlega klæddir hlaupahópar sannarlega svip sinn á hlaupið.

„Núna ætlum við að koma til móts við þessa þróun og vera með verðlaun fyrir bestu búninga hóps,“ segir Inga Dís en síðustu ár hafa aðeins verið veitt einstaklingsverðlaun í búningaflokki.

Ennfremur er fjöldi verðlauna í boði fyrir góðan árangur í ýmsum aldursflokkum og til viðbótar fá um hundrað heppnir hlauparar fjölbreytt útdráttarverðlaun.

Árið 2011 var síðan rás og endamarkið fært úr Ráðhúsinu í Hörpu og Sæbrautin hlaupin. „Við náum allt annarri stemningu þarna,“ segir Inga Dís en Harpa rúmar hlauparana vel. Í ár verður bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða upp á ljósmyndatökur af hópum.

Súmóglímukappi tók fram úr henni

Þó að margir séu búningaklæddir verður líka komið til móts við þá sem eru ekki aðeins að hlaupa sér til yndis. „Við ætlum að vera með hraðastjóra núna ef veður leyfir,“ segir hún.

Inga Dís byrjaði að hlaupa árið 2009. Hún hefur tvisvar sinnum tekið þátt í gamlárshlaupinu, árin 2009 og 2010 og hefur eftir það komið að skipulagningu hlaupsins. Hún hefur þó ekki keppt í búningi. „Ég er ennþá bitin af þeirri reynslu þegar maður í búningi súmóglímukappa tók fram úr mér. Mér féllust hendur. Þetta var mitt fyrsta tíu kílómetra hlaup og ég eiginlega bugaðist þegar þessi blaðra tók fram úr mér,“ segir hún og hlær. „Ég jafnaði mig hins vegar fljótt og var rígmontin það sem eftir var dags og næstu daga að hafa hlaupið þessa vegalengd.“

Gamlárshlaup ÍR
Gamlárshlaup ÍR . Ljósmynd Torfi Leifsson.
Forsíða
Forsíða
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert