Lýsing dæmd til að greiða sekt

Lýsing þarft að greiða milljón krónur í sekt fyrir að …
Lýsing þarft að greiða milljón krónur í sekt fyrir að neyða viðskiptavin til að höfða dómsmál að ástæðulausu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hefur verið dæmt til að endurgreiða konu sem ofgreiddi bílalán hjá fyrirtækinu. Lýsing var jafnframt dæmd til að greiða málskostnað konunnar með álagi og milljón króna sekt til ríkissjóðs fyrir að neyða hana til að höfða mál að ástæðulausu.

Konan hafði áður höfðað mál gegn Lýsingu vegna bílaláns sem hún tók hjá fyrirtækinu árið 2007. Hélt hún því fram að fyrirtækið hafi ekki endurreiknað gengislán hennar með réttum hætti og því hefðu hún ofgreitt af láninu. Héraðsdómur vísaði aðal- og varakröfu hennar frá dómi þegar málið var tekið fyrir í apríl í fyrra. Hins vegar féllst hann á þá þrautavarakröfu hennar að Lýsingu væri óheimilt að að krefja hana um frekar vaxtagreiðslur en hún hafði þegar greitt frá 2007 til 2010 við endurreikning lánsins.

Ekki var hins vegar lagður efnisdómur á þá kröfu sem konan gerði á hendur Lýsingu um endurgreiðslu. Því þurfti konan að höfða mál að nýju þrátt fyrir þá niðurstöðu Héraðsdóms að Lýsingu hafi verið óheimilt að krefja hana um frekari vaxtagreiðslur. Héraðsdómur hefur nú fallist á kröfur konunnar og þarf Lýsing að greiða henni rúmlega 380.00 krónur til baka. Jafnframt þarf fyrirtækið að gefa út afsal fyrir bifreiðina til konunnar.

Neyddu konuna til að höfða mál að ástæðulausu

Lýsingu var hins vegar einnig refsað fyrir hátterni sitt í málinu. Í dómi Héraðsdóms kemur fram að með fyrra málinu hafi verið skorið úr meginágreiningi deiluaðila um hvort konan gæti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af bílaláninu. Lýsing hafi ekki áfrýjað dómnum til æðra dómstigs en hins vegar túlkað dóminn, sem ekki var aðfararhæfur, þannig að konan ætti enga kröfu á hendur fyrirtækinu. Með þessu hafi Lýsing komið konunni í þá aðstöðu að neyðast til að höfða annað dómsmál að ástæðulausu.

Þegar konan höfðaði aftur mál fór Lýsing fram á að því væri vísað frá dómi þar sem þegar hefði verið skorið úr sakarefninu til fulls með dómi Héraðsdóms.

„Gat tilgangur þessarar kröfugerðar stefnda ekki verið annar en sá að koma í veg fyrir að stefnandi fengi efnislega úrlausn réttinda sinna, svo sem hún á rétt á samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, með því að hún þyrfti að una við dóm sem ekki var aðfararhæfur og fyrir lá að stefndi ætlaði sér ekki að bregðast við með neinum hætti,“ segir í dómnum.

Dómurinn mat það svo að Lýsingu hafi mátt vera ljóst að frávísunarkrafan og mótbárur við að konan gæti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir væru bersýnilega haldlausar. Því var fyrirtækið dæmt til að greiða málskostnað konunnar með álagi, alls 1.882.500 krónur. Einnig var það dæmt til að greiða eina milljón króna í sekt til ríkissjóðs fyrir að neyða konuna til að höfða mál að ástæðulausu.

Dómur Héraðsdóms í málinu gegn Lýsingu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert