Vill ræða „grafalvarlega stöðu atvinnumála á Þingeyri og Flateyri“

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, hefur óskað eftir því við Gunnar Braga Sveinsson, fyrsta þingmann kjördæmisins, og Einar K. Guðfinnsson, annan þingmann kjördæmisins, að kallaður verði saman fundur þingmanna kjördæmisins sem fyrst til að ræða atvinnumál á Þingeyri og á Flateyri. Erindi fundarins er „grafalvarleg staða atvinnumála á Þingeyri og Flateyri,“ líkt og segir í bréfi hennar til þingmannanna tveggja.

„Maður var að vona að þetta væri að fara í einhvern farveg sem væri þá að smella saman, svo virðist ekki vera,“ segir Lilja, sem óttast þetta óvissuástand sem nú ríkir.

Vísir hf. mun hverfa frá Þingeyri í mars næstkomandi og þurfa starfsmenn fyrirtækisins að svara fyrirtækinu fyrir næstu mánaðamót hvort þeir hyggist flytja til Grindavíkur, þar sem þeim hefur verið boðin vinna.

Lilja segist ekki vera með einhverja fullkomna lausn á vandanum en segir að byggðir eins og Þingeyri eða sambærileg sjávarpláss þurfi að búa við miklu meiri stöðugleika en þann sem nú er.

„Ég horfi alltaf sterkar og sterkar á að það sé byggðakvóti eða aflaheimildir sem eru bundnar þessum sjávarbyggðum,“ segir Lilja. Hún segir að þannig geti menn ekki farið með aflaheimildirnar frá viðkomandi stöðum „heldur sé þá eitthvað sem dregur aðra að, til þess að hefja vinnslu og útgerð á viðkomandi stað,“ segir Lilja og bætir við að hægt sé að koma til móts við þessi byggðalög með nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi.

Byggðakvótinn eins og allt of lítill plástur

Hún segir að ekki hafi verið haldinn íbúafundur nýlega um þessi mál en að Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Ísafjarðarbær hafi verið í samráði við Byggðastofnun á síðasta ári. „Ég efast ekki um að menn hafi verið að leggja sig fram á þeim bæjum að finna út úr þessu en svo virðist þetta hafa hlaupið allt í baklás núna fyrir áramótin,“ segir Lilja og nefnir þar að Byggðastofnun hafi ekki úthlutað aflaheimildum til þessara plássa.

„Byggðastofnun treysti sér ekki til að úthluta þessum aflaheimildum sem lá í pípunum að gera varðandi þennan byggðakvóta,“ segir Lilja og bætir við að byggðakvótinn sem um ræðir skipti ekki sköpum.

„Því miður er hann bara plástur og allt of lítill, því þetta eru auðvitað einhver 400 tonn og vinnsla fyrir einhver 400 tonn á Þingeyri dugar ansi skammt og þó að hann verði tvöfaldaður,“ segir Lilja.

Aðspurð hvaða áhrif það hefði á byggð ef ekki finnst lausn á atvinnumálum á svæðinu segir hún hætt við því að kjarninn úr byggðalaginu hverfi smátt og smátt ef ekkert verður aðgert.

„Það er auðvitað að molna undan innviðunum stöðugt hjá þeim sjávarbyggðum sem eru í sambærilegri stöðu og hætt við því að kjarninn úr byggðalaginu hverfi. Ég vil ekki hugsa það til enda til hvers svona þróun getur leitt fyrir mörg byggðarlög sem eru mjög brothætt. Mér finnst þróunin ekki þurfa að vera með þessum hætti ef allir þeir sem hafa eitthvað um þessi mál að segja, og hafa einhverja möguleika til að taka til hendinni, taka höndum saman,“ segir hún.

Lilju hefur ekki borist svar frá Gunnari eða Einari enda var pósturinn sendur til þeirra í dag. Hún óskar eftir því að á fundinn verði boðaðir, ásamt öllum þingmönnum kjördæmisins, fulltrúar Byggðastofnunar, Ísafjarðarbæjar og Verkalýðsfélags Vestfjarða ásamt fulltrúum heimamanna.

 - Áttu von á að niðurstaða fáist úr þessum fundi?

„Já, ég vona að það sé eitthvað í pípunum sem hægt er að vinna með og menn sjái að við megum engan tíma missa. Þetta starfsfólk á Þingeyri þarf að svara atvinnutilboði frá Vísi um næstu mánaðamót og fólk vill hafa einhvern aðdraganda að því hvort það ætli að rífa sig upp með rótum,“ segir Lilja og nefnir að erfitt gæti reynst að selja húsnæði og flytjast búferlum.

„Það þarf að sjá fram á einhverja atvinnu á svæðinu á næstunni. Ég vona því að allir muni leggja sig fram um að leita lausna, með einhverjum hætti, og ef þörf er á að kaupa okkur lengri tíma til að vinna úr því sem Byggðastofnun hefur verið að skoða,“ segir Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert