Hefðu betur sent einhvern æðstu embættismanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Forsætisráðuneytið segir í yfirlýsingu að „eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt til göngunnar“, sem haldin var í París á sunnudaginn eftir árásirnar á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo.

„Orðsending frá franska sendiráðinu til stjórnvalda um þátttöku í göngunni barst skrifstofu forseta Íslands, forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu undir kvöld síðastliðinn föstudag. Ekki var um að ræða boð til einstakra embættismanna, heldur var það almenns eðlis.

Að ósk forsætisráðherra var engu að síður kannað hvort hann gæti tekið þátt í göngunni, en að mati ráðuneytisins var erfitt að koma því við vegna ýmissa samverkandi þátta. Ráðuneytið telur hins vegar, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt til göngunnar,“ eins og segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing ráðuneytisins í heild

„Í ljósi umfjöllunar um samstöðugönguna í París um liðna helgi vill forsætisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.

Franska sendiráðið á Íslandi hefur áréttað við íslensk stjórnvöld að frönsk yfirvöld séu þakklát fyrir viðbrögð og samstöðu Íslendinga í málinu og sýni því fullan skilning að staðgengill sendiherra hafi tekið þátt í samstöðugöngunni í París fyrir hönd landsins, en ekki forseti Íslands eða ráðherra úr ríkisstjórn.  

Orðsending frá franska sendiráðinu til stjórnvalda um þátttöku í göngunni barst skrifstofu forseta Íslands, forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu undir kvöld síðastliðinn föstudag. Ekki var um að ræða boð til einstakra embættismanna, heldur var það almenns eðlis.

Að ósk forsætisráðherra var engu að síður kannað hvort hann gæti tekið þátt í göngunni, en að mati ráðuneytisins var erfitt að koma því við vegna ýmissa samverkandi þátta. Ráðuneytið telur hins vegar, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt til göngunnar.

Íslensk stjórnvöld hafa, sem áður greinir, ítrekað komið samúðarkveðjum og yfirlýsingum um samstöðu og stuðning á framfæri við frönsk stjórnvöld. Skrifaði forsætisráðherra meðal annars starfsbróður sínum, Manuel Valls, sérstakt samúðarskeyti og afhenti sendiherra Frakklands á fundi þeirra hinn 8. janúar sl. Þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra viðstödd samstöðufund við franska sendiráðið síðar þann dag. Forseti Íslands og utanríkisráðherra hafa ennfremur komið á framfæri samúðarkveðjum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert