Kynferðisbrotamál skekur Grímsey

Flest brotanna segir konan hafa átt sér stað í Grímsey.
Flest brotanna segir konan hafa átt sér stað í Grímsey. Ljósmynd/ Þorvaldur Örn Kristmundsson

Kynferðisbrotamál sem sagt er hafa skipt Grímseyingum upp í tvær fylkingar hefur verið sent til ríkissaksóknara.

Fórnarlambið er 21 árs kona sem segir sögu sína opnuviðtali við í Akureyri Vikublað. Hún kveðst hafa verið 14 ára þegar miðaldra fjölskylduvinur braut fyrst gagnvart henni þar sem hún var að störfum í útgerð í Grímsey. Segir hún manninn hafa nauðgað sér ítrekað allt þar til hún var 17 ára en þá hafi hún öðlast styrk til þess að segja honum að hætta.

Samkvæmt viðtalinu heldur maðurinn því fram að þau hafi átt í ástarsambandi en hún segir börn ekki geta átt í kynferðislegu ástarsambandi við eldri menn enda kallist það misnotkun eða nauðgun. Segir hún manninn hafa misnotað stöðu sína og traust sitt og að hann hafi valdið henni miklum andlegum erfiðleikum, þunglyndi og kvíða.

Í viðtalinu segir konan að hinn meinti kynferðisglæpur hafi klofið eyjaskeggja í tvær fylkingar þar sem meintur gerandi tengist einni útgerðinni í eyjunni.

Gæti haft áhrif á byggð í Grímsey

Byggð í Grímsey er nú í hættu vegna yfirvofandi sölu á kvóta úr eynni. Sölunni er ætlað að gera upp lán sem tekin voru fyrir kaupum á aflaheimildunum. Hinn meinti gerandi í fyrrnefndu kynferðisbrotamáli tengist útgerð í Grímsey. Samkvæmt Akureyri Vikublað segja heimamenn að maðurinn eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar. Því er ljóst að hafi heimamenn eða aðrir stuðningsmenn útgerðar í Grímsey ekki bolmagn til að kaupa kvóta mannsins gæti það haft mikil áhrif á framtíð sjávarútvegs og þar með byggðar í eynni.

Heiður hússins fram yfir fólkið

Í viðtalinu við Akureyri Vikublað segist stúlkan hafa fengið símhringingar vegna fyrstu fréttar miðilsins af málinu og fram kemur að fjöldi fólks hafi mótmælt fréttaflutningnum.

Hún segir viðbrögðin við fyrstu fréttinni ekki hafa komið sér á óvart.

„Grímsey er lítið samfélag og eins og ég hef upplifað þetta frá því að ég man eftir mér, þá er það heiður hússins sem skiptir flest fólk í eyjunni máli.“

Slík viðbrögð komu þó ekki í veg fyrir að hún stigi fram enda vill hún sjá réttlætinu fullnægt og segist vilja hvetja aðra þolendur til þess að segja frá.

„Þetta er ekki manni sjálfum að kenna, þetta er gerandanum að kenna. Og ekkert til þess að skammast sín fyrir, það er gerandinn sem þarf að skammast sín.“

Talið er að málið geti haft áhrif á sjávarútveg og …
Talið er að málið geti haft áhrif á sjávarútveg og þar með byggð í Grímsey. Ljósmynd/ Helga Mattína Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert