Krapastíflan 5,5 kílómetrar

Krapastíflan við Grímsstaðabrú.
Krapastíflan við Grímsstaðabrú. Ljósmynd/ Sigurður Aðalsteinsson

Krapastíflan í Jökulsá á Fjöllum teygir sig 2,5 kílómetra niður fyrir Grímstaða brú og 3 kílómetra upp fyrir hana samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Krapastíflan er sú stærsta síðan í desember 2010.

Bera fór á ístruflunum á þessum stað um miðjan desember 2014 en skömmu fyrir árslok dró mjög úr þeim. Krapastíflan hóf hinsvegar að byggjast up þann 11. janúar og virðist lítið lát á. Samkvæmt frétt á vefsvæði Veðurstofu Íslands eru krapastíflur frekar algengar á þessum stað en þær myndast þegar kalt er í veðri og skafrenningur. Getur þykkt stíflunnar náð svipaðri hæð og brúargólf Grímsstaðabrúar og rennur þá vatn yfir þjóðveginn.

Ef rennsli eykst hinsvegar skyndilega vegna snarprar hlýnunar í veðri og hláku eða vegna jarðhitavirkni þá er töluverð hætta á ferðum. Áin getur þá rutt sig í þrepahlaupi með miklum látum.

Vonast er til þess að áin finni sér farveg og bræði af sér stífluna jafnt og þétt.

Hægt er að sjá fleiri ljósmyndir af krapastíflunni á vef Veðurstofunnar.

Tengdar fréttir:
Stærsta krapastífla síðan í desember 2010

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert