Löggunni boðið í gúllas

Verkefni lögreglunnar eru margvísleg.
Verkefni lögreglunnar eru margvísleg. mbl.is

„Á bóndadegi er gott að rifja upp verkefni sem lögreglan lendir í. Þannig var á dögunum að lögreglan brást við útkalli þar sem fín frú í borginni reyndist hafa verið að elda dýrindis nautagúllas handa sínum ektamanni,“ skrifar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á Facebook-síðu sína.

„Er pottur var settur á eldavélina urðu þau leiðu mistök að undir honum var hitaeinangrandi korkplatti sem sviðnaði töluvert með tilheyrandi reyk og óþef.

Ekki var um teljandi skemmdir að ræða og því fór þetta betur en á horfðist og var íbúðin reykræst með kröftugum blásurum sem slökkviliðið hefur í sínu tækjabelti. Ekki tafði það hjónin mikið, sem gæddu sér á gúllasinu, þrátt fyrir vindbelging blásaranna í eldhúsinu. Það sem reyndist lögreglumönnum þó erfitt, eins og fram kemur í bókun um málið, var að þeir höfðu verið á leið í mötuneyti lögreglunnar þegar útkallið barst og ekki minnkaði hungrið við að sinna þessu matartengda útkalli. Var lögreglumönnunum boðið að fá sér gúllas, hjónunum til samlætis, en afþökkuðu pent, þótt höfðinglega væri boðið. Gott er að taka fram að gúllasið skemmdist ekki þrátt fyrir þessi smávægilegu mistök,“ segir í færslu lögreglunnar um málið á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert