Þurfti að flytja sófann öðruvísi

mbl.is/Eggert

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Mörg mál komu þannig upp sem tengdust ölvuðu fólki eða undir áhrifum fíkniefna. Þar á meðal ungmennum sem höfðu ekki aldur til að vera inni á skemmtistöðum.

Nokkur umferðaróhöpp áttu sér ennfremur stað en ekkert þeirra reyndist þó alvarlegt. Í tveimur þeirra hurfu gerendur af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn og í því þriðja reyndist ökumaður án réttinda og reyndi hann að villa á sér heimildum. Þá var ökumaður stöðvaður fyrir að vera með stóran leðursófa standandi út úr skottinu á bifreiðinni sem hann ók. Hann á von á sekt vegna málsins og þurfti að koma sófanum á leiðarenda með öðrum hætti.

Þrjú þjófnaðarmál komu upp. Eitt í íþróttaheimili þar sem farið var inn í búningsklefa og rótað í munum. Hafði viðkomandi lítið upp úr krafsinu. Annað málið kom upp í verslun í miðbænum þar sem flík var tekin ófrjálsri hendi. Þjófurinn náðist og málið var í kjölfarið afgreitt á staðnum. Þriðja málið kom upp á skemmtistað í nótt. Þar var um ofurölvi einstakling að ræða sem var að stela frá gestum. Hann náðist og er vistaður í fangaklefa þar til hægt er að ræða við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert