Bíða enn í rútunni á Djúpvegi

Vatnavextir á Ísafirði
Vatnavextir á Ísafirði mbl.is/Sigurjón J

Unnið er að því að koma nýju ræsi fyrir á Djúpvegi þar sem vegurinn er í sundur, að sögn Sverris Guðbrandssonar, verkstjóra hjá Vegagerðinni á Hólmavík. Hópur nemenda hefst við í rútu við Staðará og bíður þess að hægt verði að opna veginn á ný. Það verður væntanlega á milli 9 og 10.

Rúmlega 40 nemendur úr Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, ásamt bílstjóra og þremur fararstjórum bíða átekta við Staðará í Steingrímsfirði, en vegurinn þar fór í sundur rétt norðan við vegamótin þar sem vegur nr 61, Vestfjarðavegur og vegur nr 645, Drangsnesvegur, mætast.

Djúpvegur nr 61 rétt fyrir sunnan Hólmavík ( við Skeljavík) er nú lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Sami vegur er líka í sundur yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar.

Að sögn Sverris eru aðstæður erfiðar þar sem erfitt er að koma ræsinu á sinn stað vegna mikils vatnselgs. Hann vonast samt til þess að hægt verði að hleypa umferð yfir veginn á tíunda tímanum. 

Skarðið í veginum er ekki djúpt á þessum stað en það er mun dýpra þar sem sami vegur er einnig í sundur við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík og er reiknað með að viðgerð þar geti tekið töluverðan tíma.

Búið er að opna veginn um Holtavörðuheiðina að nýju en loka þurfti fyrir umferð um heiðina í gærkvöldi vegna vatnselgs á veginum.

Vegfarendur eru varaðir við miklum vatnavöxtum í dag, vatn getur farið yfir veg þar sem ræsi hafa ekki undan.

Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir þó er eitthvað um hálkubletti í uppsveitum Suðurlands.

Á Vestfjörðum eru vegir að verða auðir en snjóþekja og éljagangur er á Þröskuldum en Hálka á Gemlufallsheiði. Óveður er á Mikladal og Hálfdán.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Óveður á Víkurskarði og Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er einnig  að mestu með suðausturströndinni en óveður er á Hvalnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert