„Svaðilförin verður eftirminnilegt ævintýri“

„Gímald“ blasti við Hólmvíkingum á Djúpvegi
„Gímald“ blasti við Hólmvíkingum á Djúpvegi Ljósmynd/Jón Halldórsson

„Rörin eru komin í og við erum bara að vinna í að fylla þetta upp,“ segir Sverrir Guðbrandsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, en þar er nú unnið að því að fylla upp í skarð á Djúpvegi sunnan við Hólmavík. Vegurinn fór í sundur í miklum vatnselg í bæjarlæknum í gær, en Sverrir sagði í samtali við mbl.is í morgun að „gímald“ blasti við bæjarbúum.

Sverrir kveðst vona að hægt verði að koma veginum í sæmilegt stand í kvöld. „Við vonum að við stöndumst tímamörk og náum að gera þetta fært um kvöldmatarleytið. Aðstæður eru líka þokkalegar eins og er, það er allavega enginn bylur.“

56 manna hópur úr Fjöl­brauta­skóla Norður­lands vestra sat fastur í rútu á veginum í nótt, en hópnum var komið til Hólmavíkur um klukkan 11 í morgun. Auðunn Steinn Sigurðsson, einn fararstjóra í hópnum, sagði í samtali við mbl.is í morgun að „haf“ hefði verið fyrir framan rútuna og mikil mildi að hún hafnaði ekki ofan í holu.

Dvöldu í sautján klukkustundir í rútunni

Hópurinn er nú í félagsheimilinu á Hólmavík og bíður þess að viðgerð ljúki til þess að hægt sé að halda heim á leið. „Við erum í góðu yfirlæti í félagsheimilinu á Hólmavík þar sem var tekið vel á móti okkur. Hópurinn fékk að borða og fólk gat lagt sig á dýnum, þannig að stemningin er eins góð og hún getur verið,“ segir Auðunn.

Auðunn segir að það örli þó á þreytu í mannskapnum, enda sjaldan boðið upp á eins langar rútuferðir og hópurinn þurfti að þola. „Maður er ekki vanur að sitja í rútu í sautján klukkutíma og geta lítið farið út nema rétt til að kasta af sér vatni.“

Hann segir ferðalangana þó almennt vera hressa og svaðilförin muni eflaust skapa skemmtilegar minningar.

„Ég hef ekki upplifað svona skólaferðalag áður, og ekki heldur þegar ég var í skóla. Þetta er hins vegar bara eftirminnilegt ævintýri fyrir krakkana til að rifja upp þegar þeir verða eldri, að segja frá svaðilförinni á Ísafjörð og til baka,“ segir Auðunn.

56 manns dvöldu í rútunni í um sautján klukkustundir
56 manns dvöldu í rútunni í um sautján klukkustundir Ljósmynd/Sævar
Rútuferðalangarnir dveljast nú í félagsheimilinu á Hólmavík
Rútuferðalangarnir dveljast nú í félagsheimilinu á Hólmavík Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert