Veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum

mbl.is/Sigurður Bogi

Riðuveiki er arfbundinn smitsjúkdómur í sauðfé og geitum, langvinnur og ólæknandi. Hún veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Eins og fram hefur komið greindist riðuveiki nýverið á bæ á Norðvesturlandi, en þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2010 sem hefðbundin riða greinist á landinu.

Greint var frá málinu á vef Matvælastofnunar í dag. Þar er ennfremur fjallað almennt um riðuveiki. 

Getur orðið sjúklegt og fádæma lífseigt

Þar segir, að flestar kindur, sem veikjast séu eins og hálfs árs til fimm ára gamlar. Dæmi séu þó um riðu í sjö mánaða gömlu lambi og 14 vetra á.

„Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur protein, nefnt PRÍON eða PrP sem hefur breytt lögun og við það orðið sjúklegt og fádæma lífseigt, þolir langa suðu og flest sótthreinsiefni nema klór,“ segir í umfjöllun MAST.

Þá segir, að heilbrigt príon myndist í flestum vefjum dýra og sé bundið við yfirborð fruma í líkamanum. Riðupríónið, sem komist hafi í líkama kindar, oftast um munn, aflagi eftir sinni sjúklegu gerð, heilbrigt príón, sem það mæti í líkamanum, og það aflagi svo önnur. Þannig fjölgi smitefninu með vaxandi hraða, fyrst í eitlavef, svo í heila og mænu og skemmdirnar þar framkalla einkennin.

Ennfremur segir, að kindur geti gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Oftast sé þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Veikin leiði kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. 

Algengasta smitleiðin um munn frá kind til kindar

Þá kemur fram, að riða í sauðfé smitist fyrst og fremst með því að skepnurnar éta, drekka eða sleikja smitefni með óhreinindum. Algengasta smitleiðin sé um munn frá kind til kindar en geti líka orðið um sár.

„Smit er talið geta borist á milli kinda með rúningsklippum, sprautunálum og fleiru. Smithættan er mest við húsvist á sauðburði af hildum, sem kindur eta hver úr annarri og fósturvatni, munnvatni eða slefu sem lendir í drykkjarílátum og fóðri í sameiginlegri jötu, af vessa frá augum, af saur og öllu saurmenguðu. Lömb smitast af mæðrum sínum, sem eru smitberar eða veikar,“ segir í umfjölluninni.

Riðunefndir gerðu ómetanlegt gagn

Þá er tekið fram, að það hafi í stórum dráttum gengið vel að uppræta riðuna en það vanti herslumuninn. Best væri að binda í samstarf hóp hagsmunaaðila í bændastétt og fulltrúa sveitarstjórnar (búfjáreftirlit), sem hefði á sinni könnu að líta eftir því sem gæti falið í sér smithættu t.d. samgang á fé, fjárverslun eða önnur viðskipti með fé, langflutninga á sláturfé og að aðstoða dýralækna við að fylgja eftir varnaraðgerðum.

„Riðunefndir gerðu ómetanlegt gagn, þegar baráttan var sem heitust gegn riðuveikinni. Nú gætu slíkir vökumenn aðstoðað dýralækna við að uppræta garnaveiki einnig og hugað að fleiri smitsjúkdómum og nefnast heilbrigðisnefnd eða búfjársjúkdómanefnd. Vonlaust er að ætla dýralæknum einum ráða við þessi mál,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert