Yfirmatsmenn í máli Annþórs og Barkar

Börkur og Annþór afplána nú dóma á Litla-Hrauni sem þeir …
Börkur og Annþór afplána nú dóma á Litla-Hrauni sem þeir hafa hlotið vegna annarra mála.

Réttarmeinafræðingar frá Svíþjóð og Noregi verða yfirmatsmenn í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar sem eru sakaðir um að hafa orðið samfanga sínum á Litla-Hrauni að bana. Þetta var formlega ákveðið við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Suðurlands nú síðdegis.

Leitin að yfirmatsmönnum hefur tekið rúmt ár, en þeir hafa nú loks verið dómkvaddir og hefja þeir störf þegar í stað.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, og Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfesta þetta í samtali við mbl.is. Helgi Magnús segir að ferlið hafi tekið allt of langan tíma. 

Hólmgeir segir aðspurður að ýmis tæknileg atriði hafi ennfremur verið rædd við fyrirtökuna, t.d. hvaða gögn matsmennirnir eigi að hafa undir höndum. Málinu var síðan frestað um ótiltekinn  tíma, eða þar til matsskýrslur liggja fyrir.

Aðspurður segir Hólmgeir að ekki sé hægt að segja til um það hvenær skýrslurnar muni liggja fyrir. Vonandi verði það eftir einn til tvo mánuði. Þá verði hægt að taka ákvörðun um það hvenær aðalmeðferð málsins hefjist. 

Annþór og Börkur eru ákærðir fyr­ir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með of­beldi að fanga á Litla-Hrauni og veitt hon­um högg á kvið með þeim af­leiðing­um að rof kom á milta og á bláæð frá milt­anu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völd­um inn­vort­is blæðinga.

Hringurinn að þrengjast um matsmenn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert